Er svæðinu skipt upp í vestur- og austursvæði og er gistiaðstaða á báðum svæðum. Á vestursvæðinu er áætlað að koma fyrir allt að 1.000 manns í skammtímagistingu í gámarými. Á austursvæðinu er nú þegar gistiaðstaða fyrir 200 manns í átta gistihúsum í tímabundinni dvöl. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bæta við fjórum húsum. Verði hvert þeirra með gistiaðstöðu fyrir um 70 manns.

„Sumir hóparnir koma hingað með stuttum fyrirvara. Viðvera erlends liðsafla hefur aukist síðastliðin ár, til dæmis vegna aukinna umsvifa í tengslum við kafbátaeftirlit.“ Segir hann að æskilegt sé að hermenn dvelji innan öryggissvæðisins, við loftrýmisgæslu og æfingar. Þegar ekki hefur verið til pláss hafi þessir hópar þurft að gista á hótelum á Suðurnesjum eða á höfuðborgarsvæðinu.
Sterkur orðrómur hefur verið um að Bandaríkjamenn endurveki herstöð sína hér á landi í ljósi stöðunnar í alþjóðamálum. Kínverjar hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga og boðist til þess að fjárfesta í innviðum í tengslum við opinbera verkefnið Belti og braut.
Herforinginn Richard Clark, sem heimsótti Ísland í fyrra, sagði að Bandaríkjaher greiddi 14,5 milljónir dollara, eða rúmlega 1,75 milljarða króna, fyrir innviðauppbyggingu á Keflavíkurflugvelli það ár og sagði Ísland „gríðarlega mikilvægt“. Áætlað er að þessi upphæð fari upp í 57 milljónir dollara, eða rúmlega 6,8 milljarða króna, árið 2020.
Þrátt fyrir þessi stórauknu umsvif Bandaríkjanna segir Sveinn að engin eðlisbreyting hafi orðið frá því sem verið hefur hvað varðar viðveru erlends liðsafla á Íslandi. „Þær framkvæmdir sem eru fram undan á vegum Bandaríkjahers eru ekki til marks um að varanleg viðvera hans hérlendis standi til,“ segir Sveinn. „Liðsafli á vegum Bandaríkjahers hefur verið hér á landi af og til frá árinu 2008 við loftrýmisgæslu og önnur varnartengd störf.“ Þegar átt sé við tímabundin gistirými sé algengast að erlendur liðsafli dvelji hér í nokkra daga og allt upp í fjórar vikur. Aðeins fámennur hópur á vegum sjóhersins dvelji hér lengur en í einn mánuð.