Innlent

Dæmi um að hinsegin fólk hafi flúið frá Póllandi til Íslands

Sylvía Hall skrifar
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78. Vísir
Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnmálaflokksins Lög og réttlæti, hefur lýst yfir sigri í pólsku þingkosningunum. Flokkurinn hefur verið við stjórnvölinn í Póllandi frá þingkosningum árið 2015 þegar flokkurinn hlaut hreinan meirihluta.

Flokkurinn hefur beitt sér gegn auknum réttindum hinsegin fólks og sagt baráttu þeirra vera mikla ógn við menningu og börn landsins. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78, segir kosningabaráttuna hafa verið hatursfulla og geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir hinsegin fólk í Póllandi.

„Það að hann haldi meirihluta kannski breytir ekki öllu, en það sem breytir alveg verulega miklu er þessi kosningabarátta sem þau hafa rekið og var mjög hatrömm og hatursfull og hún getur breytt ýmsu fyrir það fólk sem er að reyna að berjast fyrir sínum réttindum og fyrir auknu umburðarlyndi frá degi til dags.“

Þorbjörg segir hinsegin fólk ekki verndað gegn hatursglæpum með sérstakri löggjöf, þau hafi ekki sömu réttindi og gagnkynhneigðir og staðan sé því mjög slæm. Hún segir vera mismikið um fordóma í garð hinsegin fólks milli svæða í Póllandi.

„Ég held að það fari mikið eftir því hvar þú býrð, það eru ákveðnir staðir þar sem það er betra og svo aðrir þar sem það er mun verra. Þetta er auðvitað bara mjög snúið að búa í svona landi þar sem maður getur orðið fyrir hatursglæpum á götum úti,“ segir Þorbjörg.

Hún segir dæmi um það að fólk hafi þurft að flýja Pólland vegna ástandsins sem ríkir þar í málefnum hinsegin fólks, til að mynda hingað til lands. Á Íslandi sé opnara og réttlátara samfélag þar sem fordómafull orðræða í garð hinsegin fólks eigi ekki upp á pallborðið.

Þrátt fyrir niðurstöður kosninganna í Póllandi segir Þorbjörg að það sé enn von fyrir breytingum og nefnir að um 57% íbúa landsins séu fylgjandi staðfestri samvist hinsegin fólks eða einhvers konar lagalegri viðurkenningu á samkynja samböndum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.