Innlent

Snorri Ingimarsson látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Snorri Ingimarsson.
Snorri Ingimarsson. Krabbameinsfélagið
Guðmundur Snorri Ingimarsson, fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélagsins, er látinn. Frá því er greint á vef Krabbameinsfélagsins.

Snorri starfaði bæði sem krabbameinslæknir og geðlæknir og var fyrsti forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Hann gengdi því starfi frá árinu 1984 til 1988. Hann lést í Reykjavík þann 14. ágúst síðastliðinn, 71 árs að aldri.

Snorri var mjög áhugasamur um krabbamein og krabbameinsfræði og lét sig mjög varða málefni þeirra sem greinast með krabbamein, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Lífsgæði fólks sem greinist með krabbamein voru honum hugleikin og í þeirri umfjöllun var hann einn af frumkvöðlunum hér á landi. Heimahlynning, sem nú þykir sjálfsögð þjónusta, var stofnuð að hans tilstuðlan.

Hann flutti fjölda erinda um krabbamein og málefni þeim tengd, þýddi rit og skrifaði og miðlaði til lærðra og leikra, bæði sem fagmaður og af eigin reynslu.

„Snorri var afar öflugur liðsmaður Krabbameinsfélagsins og aðildarfélaga þess og starfaði með þeim í áratugi, meðal annars í stjórn félagsins á árunum 1999 til 2001. Hann var ávallt skammt undan, til hans var alltaf gott að leita,“ segir á vef Krabbameinsfélagsins.

Snorri var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×