Erlent

Heimavarnaráðherra Trump er hætt

Samúel Karl Ólason skrifar
Nielsen og Trump ferðuðust nýverið til landamæra Bandaríkjanna og Mexíkó.
Nielsen og Trump ferðuðust nýverið til landamæra Bandaríkjanna og Mexíkó. AP/Jacquelyn Martin
Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, er hætt í starfi sínu. Hún fór á fund Donald Trump, forseta nú í kvöld og afhenti honum afsagnarbréf sitt, samkvæmt fregnum ytra. Samkvæmt AP fréttaveitunni vissi Nielsen ekki hvort hún yrði rekin eða myndi segja af sér þegar hún fór á fund forsetans í kvöld. Hún endaði á því að segja af sér.

Nielsen var meðal annars boðuð á fund forsetans vegna þess að hann var ósáttur við að geta ekki alfarið lokað landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Nielsen hefur sætt mikilli gagnrýni vegna starfa hennar og þá sérstaklega þegar í ljós kom að verið væri að skilja börn flótta- og farandfólks frá foreldrum sínum á landamærunum og geyma þau í búrum í einhverjum tilvikum.

Þá mun Trump hafa misst trú á henni að undanförnu vegna aukins fjölda fjölskylda sem ferðast hafa að og yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Sömuleiðis hefur hún verið ósátt við hve illa hefur gengið að fá hjálp annarra stofnanna við landamærin.

Kevin McAleenan, yfirmaður Tolla- og landamæraeftirlits Bandaríkjanna, mun taka við embætti Nielsen til bráðabirgða, samkvæmt tísti frá Trump.

Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna var stofnað í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana árið 2001 og var stofnuninni ætlað að sporna gegn hryðjuverkum.

Gífurleg velta hefur verið á ríkisstjórn Donald Trump frá því hann tók við embætti fyrir rúmum tveimur áru. Innan ríkisstjórnarinnar eru nú starfandi heimavarnarráðherra, starfandi varnarmálaráðherra, starfandi innanríkisráðherra og starfandi starfsmannastjóri Hvíta hússins.

Nielsen var skipuð í embætti í desember 2017 og samkvæmt Politico sló nánast samstundis í brýnu á milli hennar og Trump. Búist var við því að hann myndi reka hana eftir þingkosningarnar í fyrra en þau hafa verið ósammála um málefni innflytjenda og landamæraeftirlit frá upphafi.

Sjá einnig: Heimavarnarráðherrann hætti næstum því eftir skammir Trump

Trump hefur ítrekað kvartað yfir því að hún væri ekki nógu hörð í horn að taka og hefur hún sagt vinum sínum og bandamönnum að forsetinn hafi reglulega þrýst á hana að grípa til aðgerða sem færu gegn lögum Bandaríkjanna.

Á undanförnum mánuðum hefur fjöldi fólks sem handtekið er á landamærunum aukist verulega.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, segir það að einn róttækasti aðili ríkisstjórnar Trump sé ekki nægilega róttækur fyrir forsetann sé til marks um að hann hafi misst tenginguna við þjóðina.


Tengdar fréttir

Fóru til að hitta börn sín en hafa verið í haldi í mánuð

Fyrr í þessum mánuði ferðuðust foreldrar barna frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna. Þar ætluðu þau sér að hitta börn sín, sem tekin voru af þeim við landamæri Bandaríkjanna í fyrra, og báðu um að fá að halda hælisumsóknum sínum áfram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.