Innlent

Vona að raf­magn verði komið í lag á Húsa­vík fyrir há­degi

Sylvía Hall skrifar
Unnið er að því að tengja Húsavík aftur inn á kerfið í gegnum Bakka.
Unnið er að því að tengja Húsavík aftur inn á kerfið í gegnum Bakka. Vísir/Jói K

Uppfært klukkan 10:50: Rafmagn er komið á á Húsavík.



Rafmagnslaust varð á Húsavík í morgun og er unnið að því að koma rafmagni aftur á. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir vonir standa til þess að rafmagn verði komið á fyrir hádegi.

„Við erum að vinna við að tengja Húsavík aftur inn á kerfið í gegnum Bakka,“ segir Steinunn í samtali við fréttastofu. Síðustu daga hefur Landsnet staðið í viðgerðum og segir hún þær aðgerðir hafa gengið vel.

„Það eru góðar fréttir að austan, við kláruðum viðgerðir á Fljótsdalslínu 4 í gærkvöldi. Það var mjög gott mál því það er spáð slæmu veðri á svæðinu í dag þannig við lögðum allt kapp á að klára þá viðgerð í gærkvöldi. Í nótt fórum við í vinnu í tengivirkinu í Hrútatungu og erum með þrjátíu manns þar í vinnu í alla nótt. Aðgerð lauk þar í morgun og gekk bara vel.“

Nú er stefnt að því að taka út Þeistareykjalínu til þess að bregðast við ísingarveðri sem spáð er. Hugmyndin er að hreinsa það og binda þau vonir við það að það muni ekki taka langan tíma.

Hún segir mikinn viðbúnað vera hjá Landsneti svo hægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem geta komið upp.

„Við erum búin að vera með ísingarvakt á þessum svæðum og erum búin að fara í hreinsanir á þeim tengivirkjum sem við teljum að séu útsett fyrir ísingu. Við vonum bara að veðrið muni ekki leika okkur mjög illa í þetta skiptið en við erum með mannskap á svæðinu ef eitthvað gerist.“

Þá sé Landsnet stöðugt á vaktinni og það sé mikilvægt að vakta kerfið vel.

„Alltaf þegar við eigum von á veðurspá eins og þessari þá förum við vel yfir veðrið, förum yfir hvar mögulega getur orðið áraun á okkar línur og færum okkar fólk til eftir því.“


Tengdar fréttir

Til­kynnt um fleiri raf­magns­truflanir á Norður­landi

Víða eru enn truflanir á rafflutningskerfum vegna aftakaveðursins sem gekk yfir landið í vikunni. Í kvöld barst síðast tilkynning um það að rafmagnslaust væri í Langadal og Blöndudal á Norðvesturlandi vegna bilunar í flutningskerfi RARIK. Enn er unnið að því að leita að uppruna bilunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×