Sport

Sara og Björgvin óstöðvandi saman CrossFit móti á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson og Leonardo Grottino mynduðu saman liðið "TeamFoodspring.“
Sara Sigmundsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson og Leonardo Grottino mynduðu saman liðið "TeamFoodspring.“ Mynd/Instagram/sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir hélt sigurgöngu sinni áfram í CrossFit keppnunum um helgina og að þessu sinni við hlið Björgvins Karls Guðmundssonar í liðakeppni á móti í Mílanó á Ítalíu.

Sara og Björgvin Karl stoppuðu á Ítalíu á leið sinni heim frá Dúbaí þar sem þau kepptu á Dubai CrossFit Championship þar sem Sara fagnaði glæsilegum sigri en Björgvin varð í fjórða sæti.

Mótið heitir Fallseries Throwdown og er elsta CrossFit mót Ítalíu en það hefur farið fram frá árinu 2012.

Fyrir fram lítur lið með Björgvin Karl Guðmundsson og Söru Sigmundsdóttur afar vel út og að auki höfðu þau efnilegasta Ítalann, Leonardo Grottino, með sér í liði. Hann er aðeins sautján ára gamall en stóð sig mjög vel.

Þau þrjú kepptu undir merkjum „TeamFoodspring“ en öll eru þau á samning hjá næringavöru framleiðandanum Foodspring.

Það er óhætt að fullyrða að lið Söru og Björgvins hafi rústað þessu CrossFit móti á Ítalíu. Liðið endaði með 10 stig úr átta greinum þar sem markmiðið var að vera með sem lægst stig.

Lið Söru og Björgvin vann sex af átta greinum í Elítu keppni liða og endaði síðan í öðru sæti í hinum tveimur greinunum.

Næsta lið á eftir var lið „Marta Piu Due“ sem fékk 35 stig. Marta Piu Due liðið náði þrisvar öðru sæti en var neðar en það í hinum fimm greinunum. Liðið sem endaði í þriðja sæti, „Stranger Things“ náði heldur ekki að vinna grein en endaði með 39 stig eftir að hafa náð öðru sæti í tveimur greinum.

Eina liðið sem náði að vinna grein á móti liði Söru og Björgvins var liðið „I Gomorroidi“ sem varð engu að síður að sætta sig við fimmta sætið þrátt fyrir að hafa unnið tvær greinar í keppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×