Innlent

Fjölda­hjálpar­stöð opnuð á Dal­vík vegna hóps vinnu­manna sem voru orðnir kaldir heima við

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Afar slæmt veður hefur gengið yfir landið í gær og í dag og hefur það haft mikil samfélagsleg áhrif. Meðal annars hafa orðið víðtækar rafmagnstruflanir.
Afar slæmt veður hefur gengið yfir landið í gær og í dag og hefur það haft mikil samfélagsleg áhrif. Meðal annars hafa orðið víðtækar rafmagnstruflanir. lögreglan á norðurlandi eystra

Rauði kross Íslands opnaði nú undir kvöld fjöldahjálparstöð eftir að óskað var eftir aðstoð fyrir tiltekinn hóp vinnumanna sem búa í bænum og eru þar við störf.

 

Þeim var orðið kalt heima við að sögn Brynhildar Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða kross Íslands. Um töluvert stóran hóp manna er að ræða eða alls 50 manns.

Rafmagnstruflanir hafa verið víða á Norðurlandi vegna ofsaveðursins sem gengið hefur yfir landið og eru til að mynda miklar skemmdir á Dalvíkurlínu.

Rafmagnslaust hefur því verið í bænum og er það farið að hafa áhrif á heitavatnsdælur og þar með hita í húsum.

Líkt og greint var frá fyrr í dag hefur rafmagnsleysið einnig haft áhrif á heitavatnsdælur á Ólafsfirði og Siglufirði en að sögn Brynhildar hafa ekki borist beiðnir þaðan um að opna fjöldahjálparstöð.

Hún segir að þótt fjöldahjálparstöðin á Dalvík hafi verið opnuð fyrir tiltekinn hóp þá séu allir velkomnir þangað sem þurfa á aðstoð að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×