Sport

Ein grein á ÓL í París 2024 fer fram í fimmtán þúsund km fjarlægð frá París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conan Hayes í keppni fyrir utan Teahupo'o á Tahítí.
Conan Hayes í keppni fyrir utan Teahupo'o á Tahítí. Getty/Aaron Chang

Parísarbúar munu halda Sumarólympíuleikana eftir tæp fimm ár en sumir keppendur munu þó aldrei koma nálægt Parísarborg.

Forráðamenn Ólympíuleikanna í París 2024 hafa tilkynnt að þeir ætla að hafa keppni á brimbrettum á Tahítí í Frönsku Pólynesíu. Franska Pólýnesía er franskt yfirráðasvæði í Suður-Kyrrahafi.

Tahítí hafði betur í baráttunni við strendur í suðvestur Frakklandi og strendur á Brittany skaga.  Þetta þýðir að keppnin á brimbrettum mun fara í fimmtán þúsund kílómetra fjarlægð frá Parísarborg. Það tekur 22 tíma að fljúga þangað frá París og klukkan á Tahítí er tíu tímum á eftir klukkunni í Frakklandi.

Það er því ljóst að keppendur á brimbrettum á ÓL 2024 munu ekki ferðast til París til að vera hluti af Setningarhátíðinni eða lokahátíðinni.

Keppnisstaðurinn á Tahítí er í bænum Teahupo'o en það er þekktur brimbrettastaður og þar er reglulega keppt í heimsbikarnum. Öldurnar út fyrir Teahupo'o eru taldar vera í hópi þeirra stærstu í heimi.

Það fylgir reyndar sögunni að Alþjóða Ólympíunefndin á eftir að samþykkja þennan keppnisstað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.