Innlent

Lagt til að 24 ein­staklingar fái ís­lenskan ríkis­borgara­rétt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sem leggur frumvarpið fram.
Það er allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sem leggur frumvarpið fram. vísir/vihelm

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt fram lagafrumvarp þess efnis að 24 einstaklingar fái íslenskan ríkisborgararétt.

Þar á meðal er Mouhamed Lo sem fæddur er árið 1988 í Máritaníu en flúði frá heimalandi sínu árið 2009. Mouhamed hafði verið þræll þar enda sonur þræla og þar með eign húsbónda síns.

Einar Steingrímsson skrifaði grein um mál hans á Vísi árið 2012 en þar kom fram að Mouhamed hefði sótt um hæli hér á landi árið 2010.

Honum var hins vegar synjað um hæli hér árið 2011 og átti að senda hann aftur til Noregs. Þetta vakti reiði í samfélaginu og fór Mouhamed huldu höfði hér með aðstoð vina sinna.

Um mitt ár 2012 felldi dómsmálaráðuneytið svo úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun Mouhamed og fékk hann loks dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér ári síðar.

Mouhamed er sá eini frá Máritaníu sem fær ríkisborgararétt að þessu sinni með ákvörðun Alþingis en hinir 23 koma frá Rússlandi, Kína, Kólumbíu, Afganistan, Íran, Svíþjóð, Úganda, Póllandi, Nígeríu, Kirgistan, Írak, Bandaríkjunum, Taílandi, Bangladess og Serbíu.

Sá elsti er fæddur 1947 og sá yngsti 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×