Innlent

Ís­lendingar upp­skera ekki í sam­ræmi við mikinn fjáraustur í mennta­kerfið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Eva Petrova, fulltrúi sendinefndar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins á Íslandi
Eva Petrova, fulltrúi sendinefndar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins á Íslandi stöð 2

Íslendingar uppskera ekki í samræmi við mikinn fjáraustur í menntakerfið að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn mælir með því að stjórnvöld hugi sérstaklega að kennaramenntun og börnum innflytjenda.



Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kynnti í morgun úttekt sína á íslensku efnahagslífi. Í henni kemur fram að stjórnvöld hafi brugðist vel við efnahagsáföllum á árinu og falli WOW Air.



„Í fyrstu bjuggumst við við því að eftir gjaldþrot Wow Air myndi efnahagslægð jafnvel gera vart við sig. Hins vegar verðum við ekki vör við slíkt nú. Við sjáum að hagkerfið hefur staðið þann storm nokkuð vel af sér,“ segir Eva Petrova, fulltrúi sendinefndar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Þar nefnir sjóðurinn sérstaklega vaxtalækkanir og aðhald í ríkisfjármálum og spáð er lítilsháttar hagvexti á árinu.



„Opinber útgjöld Íslands til menntamála eru mun meiri en í öðrum ríkjum OECD en þegar þróun mannauðsmála er annars vegar er hagurinn ekki eins sýnilegur.“



Þar vísar hún í skýrslu sem OECD gaf út í september er sýnir að Ísland eyðir mun meira í menntakerfið en OECD ríkin gera að meðaltali. Þrátt fyrir það er árangur íslenskra nemenda í könnunum á borð við PISA undir meðallagi OECD ríkja.



Hún segir ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til íslenskra stjórnvalda samræmi við athugasemdir OECD.



„Þær tengjast menntun kennara, faglegri þróun og því að tryggja að börn innflytjenda verði ekki afskipt,“ segir Eva.



Stjórnvöld hafa þegar brugðist við að einhverju leyti, meðal annars með námsstyrkjum til kennaranema. Eva segir mikilvægt að huga að frekari umbótum.



„Þetta mun stuðla að hagvexti til lengri tíma og velferð hagkerfisins þegar á heildina er litið,“ segir Eva Petrova.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×