Erlent

Uppgötvuðu æxli í tæka tíð vegna hitamyndavélar á safni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin fræga.
Myndin fræga. Mynd/Bal Gill.

Það getur verið gagnlegt að fara á söfn og líklega hefur það aldrei átt betur við en í tilfelli 41 árs breskrar konu sem heimsótti Camera Obscura and the World of Illusions safnið í Edinborg í Skotlandi. Hitamyndavél á safninu varð til þess að æxli í öðru brjósti hennar uppgötvaðist í tæka tíð.

Bal Gill var í fríi í Edinborg í maí síðastliðnum með fjölskyldu sinni. Eftir að hafa skoðað Edinborgar-kastala sáu Camera Obscura safnið ákváðu þau að skoða það. Í safninu er herbergi með hitamyndavélum og lék fjölskyldan sér að þeim.

„Þar tók ég eftir hitabletti sem kom frá öðru brjóstinu á mér. Okkur þótti þetta skrýtið og við tókum eftir að ég var sú eina sem var með svona blett. Við tókum mynd af þessu en héldum svo áfram að skoða safnið,“ sagði Gill í samtali við BBC.

Nokkrum dögum síðar þegar heim var komið var hún að skoða myndir frá ferðinni og tók þá eftir myndinni sem hún hafði tekið þar sem hitabletturinn sást. Við Google-leit fann hún fjölmargar færslur um brjóstakrabbamein og hitamyndavélar. Hún dreif sig því til læknis.

Læknarnir voru fljótir að greina hana með brjóstakrabbamein á frumstigi. Síðan þá hefur hún farið í tvær aðgerðir, þar á meðal brjóstnám, og er ein aðgerð í viðbót framundan. Læknar hafa sagt henni að hún þurfi ekki að fara í geislameðferð eftir síðustu aðgerðina.

„Þakklæti er mér efst í huga. Án myndavélarinnar hefði ég aldrei vitað þetta. Ég veit að þetta er ekki tilgangur myndavélarinnar en í mínu tilfelli þá breytti þessi heimsókn lífi mínu,“ sagði Gill.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.