Erlent

Stórlega hefur dregið úr áfengisneyslu í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að dregið hafi úr drykkju er enn algengt að íbúar dreifðari og snauðari byggða drekki ódýrt glundur og heimabrugg.
Þrátt fyrir að dregið hafi úr drykkju er enn algengt að íbúar dreifðari og snauðari byggða drekki ódýrt glundur og heimabrugg. Vísir/Getty
Neysla Rússa á áfengi hefur dregist saman um 43% á þrettán árum samkvæmt tölfræði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Samdrátturinn er rakinn til aðgerða stjórnvalda til að draga úr neyslu og lífsstílsbreytinga landsmanna. Lífslíkur hafa á sama tíma aukist.

Rússar voru lengi vel taldir einhverjir mestu drykkjusvolar á byggðu bóli. WHO segir að áfengisneysla hafi verið ein helsta orsök dauðsfalla í Rússlandi, sérstaklega á meðal karlmanna á vinnualdri.

Frá 2003 til 2016 drógu Rússar þó verulega úr drykkju og áhrifin hafa ekki látið á sér standa. Árið 2018 voru lífslíkur Rússa þær lengstu sem þær hafa nokkru sinni verið: 68 ár fyrir karlmenn og 78 ára fyrir konur. Til samanburðar eru lífslíkur íslenskra karlmanna 81 ár og kvenna 84,1 ár samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Sérstaklega dró úr dauðsföllum sem rekja mátti til áfengisneyslu á tímabilinu, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Áfengisauglýsingum voru settar skorður, álögur á áfengi voru hækkaðar og sölutími þess takmarkaður í tíð Dmitrís Medvedev, fyrrverandi forseta. Nú er aðeins hægt að kaupa áfengi í verslunum til klukkan ellefu á kvöldin en það var áður hægt að nálgast í sjoppum allan sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×