Erlent

Á­rásar­maðurinn í París sagður öfga­sinnaður íslam­isti

Atli Ísleifsson skrifar
Saksóknarinn Jean-Francois Ricard á fréttamannafundi fyrr í dag.
Saksóknarinn Jean-Francois Ricard á fréttamannafundi fyrr í dag. AP
Maðurinn sem drap fjóra í höfuðstöðvum lögreglunnar í frönsku höfuðborginni París á fimmtudag hneigðist til öfgasinnaðra kenninga innan íslam. Frá þessi greindu franskir saksóknarar í dag.

Saksóknarinn Jean-Francois Ricard segir að árásarmaðurinn, Mickaël Harpon, hafi átt í samskiptum við liðsmenn hreyfinga salafista og sent eiginkonu sinni á fjórða tug trúarlegra smáskilaboða skömmu áður en hann framkvæmdi árásina. Segir hún að hann hafi „heyrt raddir“ kvöldið fyrir árásina.

Ricard segir að árásarmaðurinn hafi byrjað að klæða sig á annan hátt en vanalega síðustu misserin og þá hafi hann slitið öll samskipti við konur, að eiginkonunni frátaldri. Þá hafi hann einnig varið hryðjuverkaárásina í París 2015 þar sem ráðist var á skrifstofur Charlie Hebdo. Ellefu létu lífið í þeirri árás.

Harpon stakk þrjá lögreglumenn og einn starfsmann lögreglustöðvarinnar til bana, en lögreglustöðin er skammt frá dómkirkjunni Notre Dame.

Harpon var 45 ára tölvunarfræðingur sem hafði áður starfað hjá lögreglunni. Hann var skotinn til bana af ungum lögreglumanni á stöðinni eftir að hafa stungið alls fimm manns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×