Erlent

Þúsundir kröfðust sjálf­stæðis Skot­lands í Edin­borg

Atli Ísleifsson skrifar
Skoskir fánar voru áberandi í göngunni í dag. Þar mátti líka sjá einstaka ESB-fána.
Skoskir fánar voru áberandi í göngunni í dag. Þar mátti líka sjá einstaka ESB-fána. AP
Þúsundir manna komu saman á götum Edinborgar í Skotlandi fyrr í dag til að krefjast þess að Skotland lýsi yfir sjálfstæði.

Nú þegar örfáar vikur eru að óbreyttu þar til að Bretland gengur úr Evrópusambandinu virðist sem að sjálfstæðissinnar í Skotlandi hafi sett í næsta gír í baráttunni.

Mótmælendur voru margir klæddir skotapilsi og gengu með skoska fánann. Sagði Peter Johnston, einn skipuleggjenda göngunnar í dag, að Skotland verði ávallt í aftursætinu hjá Stóra-Bretlandi. Landið myndi fyrst ná að blómstra almennilega sem sjálfstætt ríki.

Skipuleggjendur göngunnar segja að 200 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni í dag, þó að lögregla hafi ekki endilega reiknað svo marga. Var gengið frá Holyrood Part og að The Meadows þar sem kröfufundur fór fram.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2014 greiddu 55 prósent Skota gegn því að lýsa yfir sjálfstæði. Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins og forsætisráðherra Skotlands, segir að fyrirhuguð útganga Bretlands úr ESB breyti hins vegar forsendunum, enda sé stuðningur við ESB-aðild mikill í Skotlandi. Hefur Sturgeon krafist nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.

Sturgeon sagðist vera með mótmælendum „í anda“ og að ekki velkjast í nokkrum vafa. Sjálfstæði væri í nánd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×