Erlent

Norð­maður drepinn þegar hann reyndi að koma tengda­föðurnum á ó­vart

Atli Ísleifsson skrifar
Christopher Bergan varð 37 ára gamall.
Christopher Bergan varð 37 ára gamall. facebook
Norðmaður var skotinn til bana af tengdaföður sínum í Flórída á þriðjudagskvöldið þar sem hann hugðist koma tengdaföðurnum á óvart á afmælisdegi hans.

Hinn 37 ára Christopher Bergan, sem áður bjó í Bandaríkjunum og giftist bandarískri konu, hafði ferðast alla leið frá Noregi til Gulf Breeze á Flórída, bankað upp á hjá tengdaföður sínum og stokkið fram úr runna. Var ætlunin að koma tengdaföðurnum á óvart á 61 árs afmælisdegi hans.

Tengdafaðirinn, Richard Dennis, skaut þá Bergan til bana með hálfsjálfvirkum riffli.

Lögreglustjórinn Bob Johnson segir að maðurinn verði ekki ákærður. Ekki sé hægt að kenna honum um hvernig fór, og falla viðbrögð hans innan ramma laga þegar kemur að sjálfsvörn.

Johnson segir að fyrr um daginn hafði Dennis átt í útistöðum við ættingja og hafði sá einnig bankað upp á fyrr um kvöldið, að því er fram kemur í Pensacola News Journal.

Dennis hafði því tekið fram riffil sinn og bar hann á sér þegar tengdasoninn bar óvænt að garði. Christopher Bergan var skotinn beint í hjartað og lést samstundis.

Á fréttamannafundi bað lögreglustjórinn almenning um að biðja fyrir manninum og fjölskyldu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×