Erlent

Portúgalskir sósíal­istar lýsa yfir sigri

Atli Ísleifsson skrifar
Antonio Costa á kjörstað fyrr í dag. Hann tók við embætti forsætisráðherra árið 2015.
Antonio Costa á kjörstað fyrr í dag. Hann tók við embætti forsætisráðherra árið 2015. Getty
Portúgalski stjórnarflokkurinn Sósíalistaflokkurinn vann „mikinn sigur“ í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í dag. Munu þeir sækjast eftir að mynda trygga ríkisstjórn til að stýra landinu næstu fjögur árin.

Þetta sagði Ana Catarina Mendes, þingkona Sósíalistaflokksins, eftir að útgönguspár voru birtar fyrr í kvöld. Útgönguspárnar bentu til sigurs Sósíalistaflokksins, en að eitthvað vantaði upp á til að flokkurinn næði hreinum meirihluta. Spurningin nú sé með hverjum forsætisráðherrann Antonio Costa vill mynda stjórn.

Í fjórum útgönguspám, sem birtar voru í kvöld, fær Sósíalistaflokkurinn á bilinu 33,3 til 40 prósent atkvæða, og má telja líklegt að flokkurinn bæti við sig þingsætum frá kosningunum 2015. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, mælist með á bilinu 24 til 31 prósent samkvæmt útgönguspám.

Í stjórnartíð Costa hefur efnahagur Portúgals batnað og hefur hagvöxtur í landinu mælst nokkuð meiri en meðaltal ESB-ríkja segir til um. Hefur ferðamannastraumurinn til landsins aukist, og það sama má segja um útflutning.

Talið er að endanleg úrslit þingkosninganna muni liggja fyrir á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×