Erlent

Verðandi for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB sakaður um að taka upp mál­flutning öfga­hægris

Kjartan Kjartansson skrifar
Von der Leyen er fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands. Hún tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar 1. nóvember.
Von der Leyen er fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands. Hún tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar 1. nóvember. Vísir/EPA
Ursula von der Leyen, verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sætir nú gagnrýni eftir að hún tilnefndi stjóra sem á að sjá um að „verja evrópska lífshætti okkar“. Tilnefningin er sögð sótt úr smiðju hægriöfgaafla sem ala á ótta við innflytjendur.Stjórinn á meðal annars að hafa innflytjenda- og öryggismál á sinni könnu. Von der Leyen tilnefndi Margaritis Schinas, grískan fyrrverandi Evrópuþingmann, til að gegna embættinu. Schinas er talsmaður framkvæmdastjórnarinnar og félagi í miðhægriflokknum Nýtt lýðræði, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.Í bréfi von der Leyen til Schinas brýndi hún fyrir honum að evrópskir lífshættir byggist á samstöðu, hugarró og öryggi.„Við verðum að taka á og lina lögmætan ótta og áhyggjur af áhrifum óreglulegs innflytjendastraums á hagkerfi okkar og samfélag,“ skrifaði von der Leyen.Mannréttindasamtökin Amnesty International saka framkvæmdastjórnina um að taka upp málflutning öfgahægrisins með því að tengja innflytjenda- og öryggismál. „Þetta sendir varhugarverð skilaboð,“ tísti Stefan Simanowitz, talsmaður samtakanna.

Ýmsir Evrópuþingmenn taka í svipaðan streng. Sophie in ´t Veld, frjálslyndur Evrópuþingmaður frá Hollandi, lýsti stjórnendastöðunni sem „falsi“.„Sú tenging að Evrópubúar þurfi vernd fyrir annarri menningu er afkáraleg og það ætti að hafna þeirri sögu,“ sagði Veld í yfirlýsingu.Von der Leyen er fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands. Hún tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar af Jean-Claude Juncker 1. nóvember og verður fyrst kvenna til að gegna því. Tilnefndi hún í vikunni 27 manna framkvæmdaráð sitt. Evrópuþingið þarf að staðfesta tilnefningar hennar.Sjálf segir hún að lýsingin á stjórastöðunni hafi verið í stefnuyfirliti sem hún gaf út í júlí. Sagði hún að reisn allra manneskja væri á meðal mikilvægustu gilda Evrópu. Evrópskir lífshættir þýddu að staðinn væri vörður um gildi Evrópu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.