Erlent

Skógareyðing ekki málefni einstakra ríkja heldur heimsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Frans páfi á Madagaskar.
Frans páfi á Madagaskar. AP/Alexander Joe
Frans páfi segir að skógareyðing og útrýming dýra- og jurtategunda eigi ekki að vera málefni einstakra ríkja. Þar sem þau ógni plánetunni allri og því varði þau alla íbúa plánetunnar. Páfinn er nú staddur á Madagaskar en sérfræðingar og rannsakendur segja eyjuna hafa tapað um 44 prósentum skóglendis á síðustu 60 árum og það megi að miklu leyti rekja til ólöglegs skógarhöggs.

Eflaust má tengja ummæli páfans við ummæli Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, sem sagði nýverið að umfangsmiklir brunar í regnskógum Amason kæmu heiminum í raun ekki við. Um innanríkismál væri að ræða.

Frans sagði spillingu, mikla fátækt og aðra þætti hafa leitt til skógareyðingar Madagaskar og sagði að nauðsynlegt væri að útvega aðilum sem stundi ólöglegt skógarhögg og veiðiþjófnað atvinnu. Annars væri ómögulegt að koma í veg fyrir það.

Samkvæmt Reuters er Madagaskar eitt af fátækustu ríkjum heimsins. Þar búa um 26 milljónir manna og Sameinuðu þjóðirnar áætla að 90 prósent þeirra lifi á undir 250 krónum á dag. Vannæring er umfangsmikil á Madagaskar og það sama má segja um spillingu.



Eftirlitsaðilar segja að ríkisstjórn Andry Rajoelina, forseta Madagaskar, hafi litið undan ólöglegu skógarhöggi og jafnvel grætt á því. Að mestu er um að ræða sölu rósa- og svartviðar til Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×