Sport

Fengu þjálfarann til að lýsa leiknum sem hann var að þjálfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean McVay.
Sean McVay. Getty/ Alika Jenner

Bandarísku sjónvarpsstöðvarnar eru alltaf að leita nýrra leiða til að komast nærri íþróttinni sem þær eru að sýna frá og gefa áhorfendum sínum um leið eins flotta þjónustu og þau geta. Enn eitt dæmið um það var í NFL-deildinni um helgina.

Að þessu sinni voru það innanbúðarmenn hjá deildinni á NFL Network sem plötuðu einn fremsta þjálfara deildarinnar til að tala við lýsendur þeirra í miðjum leik.

Leikurinn var á milli Los Angeles Rams og Dallas Cowboys og þjálfarinn var Sean McVay. Það eru nánast engar líkur að sjónvarpsstöð fengi þjálfara til að gera þetta í alvöru leik en McVay var klár í þessum leik á undirbúningstímabilinu.

Sean McVay fékk heyrnartólin á sig í miðri sókn Dallas Cowboys og lýsti í raun því sem var að gerast inn á vellinum. Hann ræddi um leið við lýsendur NFL Network eins og sjá má hér fyrir neðan.Sean McVay átti frábært tímabil í fyrra þar sem hann sýndi hversu megnugur hann er sem þjálfari í NFL-deildinni. McVay kom þá liði Los Angeles Rams alla leið í leikinn um Super Bowl.

Á tveimur tímabilum með lið Los Angeles Rams hefur hann gert liðið að einu besta liði deildarinnar en þegar Sean McVay tók við þá var hann aðeins 30 ára og 11 mánaða. Hann er yngsti þjálfarinn í NFL-deildinni í nútímanum.

Dallas Cowboys vann leikinn á endanum 14-10 en ekki er vitað hvort þessi „truflun“ NFL Network verði kennt um. Úrslitin skipta Sean McVay og lærisveina hans litlu máli en þetta var annar undirbúningsleikur Rams liðsins og hafa þeir báðir tapast.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.