Sport

Keppendum fækkar með hverri grein á heimsleikunum í CrossFit í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðir unnið heimsleikana tvisvar sinnum.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðir unnið heimsleikana tvisvar sinnum. Mynd/Instagram/thedavecastro

Stór breyting verður á keppnisfyrirkomulagi heimsleikanna í CrossFit í ár en þar munu að venju besta CrossFit-fólk heims keppa um hver sé þau hraustustu í heimi. Nú hefur keppninni verið breytt í hálfgerða útsláttarkeppni.

Heimsleikarnir í ár fara fram frá fimmtudeginum 1. ágúst til sunnudagsins 4. ágúst. Keppendur verða þó á svæðinu frá 28. júlí.

Þessi dramatíska breyting á fyrirkomulagi keppninnar þýðir að aðeins tíu keppendur verða eftir þegar kemur að síðustu greininni á heimsleikunum í CrossFit sem hefjast um næstu mánaðamót. Stór hluti keppenda fá aðeins að keppa í einni grein á leikunum.

Ísland mun eiga sex keppendur á leikunum, Björgvin Karl Guðmundsson keppir í karlaflokki en í kvennaflokki keppa þær Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Anníe Mist Þórisdóttir, Þuríður Erla Helgadóttir og Oddrún Eik Gylfadóttir. Daninn Frederik Ægidius keppir líka hjá körlunum en hann er með mjög sterka Íslandstengingu eins og flestir vita.

Alls hafa 148 karlar og 134 konur tryggt sér þátttökurétt á heimsleikunum í ár en þetta eru mun fleiri keppendur en undanfarin ár. Í fyrra voru 40 konur og 40 karlar sem komust á heimsleikana.Þessi mikla fjölgun keppenda kallaði á breytingar. Það verða því mikil forföll strax í fyrstu grein. Eftir hana munu „aðeins“ 75 karlar og 75 konur komast áfram í næstu grein.

Það verður síðan mjög spennandi að sjá hvernig þessi fyrsta grein lítur út en hún verður örugglega engin venjuleg grein. Hún hlýtur að reyna á marga styrkleika/veikleika hjá íþróttafólkinu enda væri mjög ósanngjarnt að detta út eftir mjög sérhæfða fyrstu grein.

Keppendum heldur síðan áfram að fækka með hverri grein eða niður í 50, svo 40, svo 30, svo 20 og loks verða aðeins tíu keppendur eftir þegar úrslitin ráðast í lokagreininni.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.