Innlent

Úti­ræktað græn­meti mánuði fyrr í ár en í fyrra­sumar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Feðgarnir Óskar Rafn og Andri eru hæstánæðir með að geta byrjað að taka upp útiræktað grænmeti svona snemma.
Feðgarnir Óskar Rafn og Andri eru hæstánæðir með að geta byrjað að taka upp útiræktað grænmeti svona snemma. vísir/mhh

Útiræktað grænmeti er nú komið í verslanir mánuði fyrr en síðasta sumar. Til marks um það þá eru bændurnir á Grafarbakka á Flúðum byrjaðir að taka upp kínakál, hnúðkál, spergilkál, rófur og gulrætur.

Nú er verið að pakka nýju fersku grænmeti beint upp úr útigörðunum á Grafarbakka en þar er mest ræktað af gulrótum.

Mikill þurrkur í sumar hefur þýtt mikla vökvun á görðunum, sem hefur skilað sér í góðri uppskeru.

Feðgarnir Óskar Rafn og Andri  líta reglulega á garðana og taka stöðuna og ákveða hvar á að taka upp hverju sinni.

„Já, við byrjuðum mánuði fyrr, fyrsta sendingin fór frá okkur 14. ágúst í fyrra en við byrjuðum í síðustu viku að taka upp fyrir heimamarkaðinn, Melabúðina og annað og stefnum núna í þessari viku að fara að senda til Reykjavíkur. Þetta lítur bara mjög vel út með uppskeru og annað þannig að þetta lofar góðu“, segir Óskar.

Óskar segir mikið um útiræktað grænmeti á Flúðum og nú séu flestir ef ekki allir að byrja að taka upp á fullum krafti.

„Já, það er mjög mikið, þetta er ein stærsta framleiðslan hér á Flúðasvæðinu af útiræktuðu grænmeti“.

Óskar segir mjög gaman að geta byrjað að taka upp svona snemma.

„Já, þetta er rosalega gaman að byrja á þessu svona snemma, þetta er alveg frábært, og núna, smá rigning, þetta er alveg frábært, það verður ekki betra í fimmtán stiga hita og rigningu, það sprettur allt mjög vel“.

Andri er duglegur að borða íslenskt grænmeti, ekki síst gulrætur enda segir hann þær mjög hollar og góðar.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.