Erlent

Norður-Kóreumenn hóta frekari kjarnorku- og eldflaugatilraunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump og Kim á hlutlausa svæðinu 30. júní. Bandaríkjaforseti hefur ausið einræðisherrann lofi undanfarin misseri.
Trump og Kim á hlutlausa svæðinu 30. júní. Bandaríkjaforseti hefur ausið einræðisherrann lofi undanfarin misseri. Vísir/AP

Stjórnvöld í Pjongjang hóta því að þau hafið kjarnorku- og eldflaugatilraunir sínar á nýjan leik hætti Suður-Kórea og Bandaríkin ekki við fyrirhugaða sameiginlega heræfingu í sumar. Lítið er sagt hafa þokast í viðræðum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eftir óvæntan fund Donalds Trump forseta og Kim Jong-un einræðisherra í lok júní.
Heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa verið Norður-Kóreu til ama lengi. Stjórnvöld í Pjongjang líta á þær sem undirbúning fyrir innrás í framtíðinni.
Nú segir utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu að hætti ríkin tvö ekki við æfingu sem er fyrirhuguð í sumar bindi útlagaríkið enda á tuttugu mánaða langt hlé á kjarnorku- og eldflaugatilraunum sínum. Vísar það til loforða Trump forseta um að hætta við slíkar æfingar á tveimur fundum með Kim.
„Þar sem Bandaríkin eru einhliða að ganga á bak orða sinna erum við smám saman að missa réttlætingu okkar á því að fylgja eftir skuldbindingum okkar gagnvart Bandaríkjunum líka,“ segir í yfirlýsingunni, að sögn AP-fréttastofunnar.
Trump og Kim hafa hist þrisvar undanfarin misseri, nú síðast óvænt á hlutlausa svæðinu á landamærum Norður- og Suður-Kóreu 30. júní. Vöknuðu þá vonir um að gangur kæmist aftur í viðræður ríkjanna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.
Lítill árangur hefur orðið af viðræðunum síðan. Norður-Kórea er sögð krefjast þess að viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna verði aflétt gegn því að þau heiti því að gefa vopnaáætlun sína að hluta til upp á bátinn. Bandaríkjastjórn krefst þess á móti að Norður-Kórea gangist undir frekari afvopnun áður en refsiaðgerðum verður aflétt.


Tengdar fréttir

Spilling, vannæring og misnotkun daglegt brauð í Norður-Kóreu

Íbúar Norður-Kóreu búa við gífurlegan skort og spillingu og þurfa ítrekað að greiða mútur til að lifa af og sleppa við handtökur. Fjórir af hverjum tíu, sem samsvarar rúmum tíu milljónum manna, fá ekki nægan mat og búist er við því að ástandið muni versna á næstunni í kjölfar slæmrar uppskeru.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.