Erlent

Afskipti Trump af breskum stjórnmálum „óafsakanleg“

Sylvía Hall skrifar
Jeremy Corbyn er ekki sáttur við ummæli Trump um ágæti Boris Johnson.
Jeremy Corbyn er ekki sáttur við ummæli Trump um ágæti Boris Johnson. Vísir/Getty
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska verkamannaflokksins, gagnrýnir ummæli Bandaríkjaforseta þar sem hann sagði Boris Johnson vera „tilvalinn“ eftirmann Theresu May sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. May mun láta af embætti sem forsætisráðherra og formaður flokksins þann 7. júní næstkomandi.

Í viðtali við The Sun sagði Trump að hann héldi að Johnson myndi standa sig vel í embætti forsætisráðherra og opinberaði í leiðinni að aðrir meðlimir Íhaldsflokksins hefðu falast eftir stuðningi hans.

Sjá einnig: Bandaríkjaforseti segir Boris Johnson tilvalinn sem næsta forsætisráðherra Bretlands

Corbyn er ekki sáttur við afskipti Bandaríkjaforseta og segir þau vera óafsakanleg enda þykir það heldur óvenjulegt að Bandaríkjaforseti taki svo skýra afstöðu í innanlandspólitík annarra þjóða.

„Tilraun Trump forseta til þess að ákveða hver verður næsti forsætisráðherra Bretlands er algjörlega óafsakanleg afskipti af lýðræði okkar lands,“ sagði Corbyn um ummæli forsetans.

„Næsti forsætisráðherra landsins á ekki að vera valinn af forseta Bandaríkjanna né þeim hundrað þúsund meðlimum Íhaldsflokksins heldur af bresku þjóðinni í hefðbundnum kosningum.“   

Corbyn hefur þá hafnað boði í hátíðarkvöldverð sem haldinn verður Bandaríkjaforseta til heiðurs þegar hann heimsækir landið í næstu viku.


Tengdar fréttir

Óttast áhrif afsagnar Theresu May

Theresa May stígur til hliðar eftir mánaðamót. Vonast er til þess að nýr leiðtogi verði valinn fyrir lok júlí. Alls óvíst að leiðtogaskiptin dugi til þess að leysa Brexit-málið. Boris Johnson sækist eftir stólnum og þykir langlíklegastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×