Erlent

Yfirvöld Úkraínu segjast hafa gómað rússneska útsendara

Samúel Karl Ólason skrifar
Vasyl Hrytsak á blaðamannafundinum í morgun.
Vasyl Hrytsak á blaðamannafundinum í morgun. EPA/SERGEY DOLZHENKO
Yfirvöld Úkraínu segja að starfsmenn leyniþjónustu landsins (SBU) hafi handsamað hóp útsendara frá Rússlandi sem sendir hafi verið til Úkraínu til að ráða úkraínskan njósnara af dögum. Vasyl Hrytsak, yfirmaður SBU, hélt blaðamannafund í morgun þar sem hann sagði sjö menn hafa verið handtekna og ákærða. Einn maður til viðbótar var handtekinn í morgun en ekki mun liggja fyrir hvort hann tengist umræddum hópi.



Tveir mannanna eru rússneskir og hinir eru frá Úkraínu. Saksóknarinn Anatoly Matios sagði á blaðamannafundinum í morgun að Rússarnir væru starfsmenn GRU, leyniþjónustu rússneska hersins.

Mennirnir munu hafa reynt að koma sprengju fyrir undir bíl starfsmanns leyniþjónustu úkraínska hersins. Sprengjan sprakk þó og slasaði einn úr hópnum alvarlega.

Á fundinum var sýnt myndband af manni reyna að koma sprengju fyrir undir bíl áður en mikil sprenging varð. Þá sýndi myndbandið mann liggja á sjúkrahúsi og vantaði hluta af hægri handlegg hans. Hann sagðist vera Rússi. SBU segir hann heita Timur Dzortov og að hann hafi verið aðstoðarstarfsmannastjóri ríkisstjóra Ingushetia-héraðs í Rússlandi á árunum 2015-17.

Hrytsak sagði leyniþjónustur Rússlands hafa sent nokkra slíka hópa til Úkraínu. Þeir væru meðal ananrs ábyrgir fyrir morði Maksim Shapoval, starfsmann leyniþjónustu úkraínska hersins, sem myrtur var með bílsprengju í júní 2017 og morðtilraun gagnvart öðrum starfsmanni leyniþjónustunnar fyrr í þessum mánuði.

Christo Grozev, einn af rannsakendum Bellingcat sem opinberuðu nöfn mannanna sem grunaðir eru um Novichok eitrunina í Salisbury, segir nafn Dzortov hafa verið þurrkað út úr gagnabönkum í Rússlandi. Hann sé ekki lengur á skrá sem skattgreiðandi, á ökuskírteinaskrá eða vegabréfaskrá. Þrátt fyrir það hafi hann verið þar í september í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×