Dýralæknar meta hvort mjaldrar sigla frá Þorlákshöfn

Komu tveggja mjaldra til Vestmannaeyja gæti seinkað vegna stöðu í samgöngumálum milli lands og Eyja. Ráðgert er að flytja mjaldrana ríflega 9.000 kílómetra leið frá sædýrasafni í Sjanghæ í Kína til Heimaeyjar á þriðjudag.
Óvíst með opnun Landeyjahafnar
Síðasti leggurinn átti að vera rúmlega hálftíma sigling frá Landeyjahöfn sem er enn lokuð. Unnið er að dýpkun Landeyjahafnar fyrir Herjólf og líklega siglir ferjan um Þorlákshöfn á þriðjudag.Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, segir að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að veður gæti haft áhrif á flutning mjaldranna til Eyja. „Nú er veðurspáin ekki góð, við vitum hvernig spár geta breyst fljótt, þannig að við vonum það besta.“

Aðspurður hvort óhætt sé að flytja mjaldrana sjóleiðina frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja segir Páll Marvin að það sé ákvörðun dýralækna. Ef þeir meti það í lagi verði það gert, annars ekki.

Miklar framkvæmdir hafa verið við nýtt sædýrasafn í endurbættu húsnæði gömlu Fiskiðjunnar á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum. Fiska- og náttúrugripasafn var stofnað í Eyjum 1964. Öll starfsemi þess hefur verið flutt í nýja húsnæðið.
1600 tonna laug
Ýmsar nýjungar eru á nýja sædýrasafninu, þar á meðal fjögurra metra djúp laug fyrir mjaldrana tvo. Laugin tekur um 1600 tonn af sjó sem er þrefalt vatnsmagn sundlaugar Vestmannaeyja.Mjaldrarnir hafa fengið nafnið Litla grá og Litla hvít. Þeir verða í lauginni í fjórar vikur hið minnsta, í sóttkví og til að aðlagast nýjum aðstæðum. Mjaldrarnir verða svo fluttir í kví í Klettsvík þar sem háhyrningurinn Keikó dvaldi um árabil.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.