Umfjöllun: Frakkland - Ísland 4-0 | Heimsmeistararnir kafsigldu strákana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Stade de France skrifar
Olivier Giroud varð í kvöld þriðji markahæsti landsilðsmaður Frakka frá upphafi. Hér fagnar hann marki sínu.
Olivier Giroud varð í kvöld þriðji markahæsti landsilðsmaður Frakka frá upphafi. Hér fagnar hann marki sínu. vísir/getty
Þó svo að fáir hefðu reiknað með því að okkar mönnum í íslenska landsliðinu myndu sækja gull í greipar heimsmeistarana á þeirra heimavelli var niðurstaðan á Stade de France engu að síður mikil vonbrigði. Frakkar fóru það illa með strákana í kvöld.

Niðurstaðan var 4-0 sigur heimsmeistaranna en sigurinn var síst of stór, slíkir voru yfirburðirnir. Frakkar byrjuðu mun betur í leiknum og uppskáru mark snemma, Samuel Umtiti var þar að verki á tólftu mínútu.

Eftir það komst örlítið meira jafnvægi á leik íslenska liðsins þó svo að Frakkar hafi haldið áfram að ógna. En öll von okkar manna fór endanlega út um gluggann þegar Hannes Þór Halldórsson missti af sendingu Benjamin Pavard inn í markteig, þar sem Olivier Giroud var og stýrði boltanum í autt markið.

Kylian Mbappe og Antoine Griezmann létu svo ekki sitt eftir liggja og bættu báðir við mörkum, 65 þúsund Frökkum til gríðarlegra mikla gleði. Frakkar héldu upp á 100 ára afmæli franska knattspyrnusambandsins í dag og var sannarlega boðið til veislu á Stade de France í kvöld.

Gylfi Þór í baráttu við Samuel Umtiti, sem skoraði fyrsta mark Frakklands í leiknum.Vísir/Getty
Hæfileikar Gylfa nýttust ekki

Erik Hamren, landsliðsþjálfari, ákvað að stilla upp fimm manna varnarlínu í dag en alls gerði hann fjórar breytingar frá 2-0 sigrinum á Andorra. Jóhanns Bergs Guðmundssonar var sárt saknað en hann varð frá að hverfa fyrr í vikunni vegna meiðsla. Ísland gerði lítið sem ekkert í þau skipti sem það fékk boltann, uppspilið gekk illa og sóknarþunginn eftir því máttlaus. Þar hefðu kraftar Jóhanns Bergs nýst vel.

Auk fimm varnarmanna voru þeir þrír sem voru á miðjunni að stærstum hluta í varnarhlutverki. Þar af leiðandi fengu fremstu menn Íslands í leiknum, Gylfi Þór Sigurðsson og Albert Guðmundsson, úr afar litlu að moða. Báðir reyndu hvað þeir gátu og voru duglegir, en verkefnið gegn Frökkum í dag var einfaldlega of erfitt. Í svona leikjum er einnig erfitt að vita af því að bestu hæfileikar Gylfa nýtast lítið sem ekkert, eins og kom í ljós. Hann hljóp og barðist, en gat eins og aðrir í íslenska liðinu lítið beitt kröftum sínum í sóknaraðgerðir.

Heilt yfir var íslenska liðið máttlaust í dag. Síðustu ár hefur þjóðin heillast af því landsliði sem hefur staðið í hverju stórveldinu á hverju öðru og oftar en ekki lagt sér mun stærri og söguríkari knattspyrnþjóðum að velli. En okkar menn voru aldrei nálægt slíkum afrekum í kvöld. Frakkar óðu í færum og hefðu getað refsað íslenska liðinu enn meira.

Umtiti, Kylian Mbappe og Paul Pogba fagna í kvöld.Vísir/Getty
Stóra prófið í júní

Það er þó enginn heimsendir að tapa fyrir ríkjandi heimsmeisturum á þeirra heimavelli, svo mikið er víst. Prófsteinn íslenska liðsins í þessari ferð var að sækja þrjú stig til Andorra og það tókst. Nú tekur öllu stærra verkefni við, tveir afar þýðingamiklir leikir gegn Albaníu og Tyrklandi á Laugardalsvelli í júní. Frakkar eiga sigurinn vísan í riðlinum, svo mikið er víst, en stigin sem í boði verða í sumar munu skipta gríðarlega miklu máli í baráttunni um að fylgja Frökkum upp úr riðlinum.

Mikilvægt er að missa ekki trúna á verkefninu þó svo að útlitið í kvöld hafi verið dökkt. Frakkar voru einfaldlega allt of sterkir fyrir íslenska liðið í kvöld og lét það líta illa út, rétt eins og þeir gerðu síðast þegar þessi sömu lið mættust á þessum leikvangi þann 3. júlí 2016. Yfirburðir Frakkanna voru líka algerir þá en íslenska landsliðið lét ekki slá sig út af laginu og sneru tvíefldir til baka í næsta verkefni. Það er enn engin ástæða til að ætla að aðstæður séu mikið breyttar nú.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira