Innlent

Aðrir gætu myndað blokk gegn Miðflokknum um nefndaskipan

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Steingrímur tilkynnir um breytingu í þingflokkum á þingfundi í gær.
Steingrímur tilkynnir um breytingu í þingflokkum á þingfundi í gær. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þingflokkur Miðflokksins hefur ekki óskað eftir að kosið verði aftur í nefndir þingsins.

„Nei, það er ekki annað komið til mín formlega en bréf frá þeim tveimur þar sem þeir tilkynna formlega um breytingu á aðild sinni að þingflokki,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og vísar til Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar sem gengið hafa til liðs við Miðflokkinn. „Það bréf les ég í upphafi fundar í dag og það tekur þá formlega gildi gagnvart skipulagi þingsins,“ segir Steingrímur.

Þingmenn Miðflokksins munu ekki geta krafist breytinga á skipan nefnda án aðkomu og stuðnings annarra þingmanna.

Í þingsköpum er lagt upp með samkomulag þingflokka um nefndaskipan og við því verði ekki hróflað ef tveir þriðju hlutar þingheims styðji það. Þetta er túlkað þannig að þriðjungur þingmanna geti farið fram á uppstokkun. Það er 21 þingmaður. Þingflokkur Miðflokksins þarf því tólf þingmenn til liðs við kröfu um uppstokkun.

Þá er óvíst að Miðflokkurinn fái aukið vægi við uppstokkun á nefndaskipan þrátt fyrir að flokkurinn sé orðinn stærstur stjórnarandstöðuflokka.

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar fara með formennsku í þremur nefndum. Af hálfu þingmanna Miðflokksins hefur því verið haldið fram að sem stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu eigi hann tilkall til þess að velja fyrstur í hvaða nefnd hann kýs að fara með formennsku. Svo þarf ekki að fara enda mögulegt að aðrir þingflokkar stjórnarandstöðu myndi samstöðublokk 18 þingmanna, sem kjósi sameiginlega í nefndir. Slík blokk ætti bæði fyrsta og annað val um formannsstóla og níu þingmenn Miðflokksins þyrftu að taka það formannssæti sem eftir væri.

Styrking Miðflokksins hefur hins vegar þau áhrif í tveimur nefndum þingsins, atvinnuveganefnd og samgöngunefnd, að flokkurinn hefur tvo þingmenn eða helming sæta stjórnarandstöðunnar.


Tengdar fréttir

Þurfa auka stuðning ef breyta á nefndarskipan

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í bréfi til flokksmanna að hann ætli að fara fram á að skipað verði upp á nýtt í nefndir þingsins. Hins vegar þarf 22 þingmenn til þess að samþykkja slíka beiðni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.