Sport

Var rekinn í nóvember vegna ofbeldis en er kominn í nýtt lið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kareem Hunt eftir leik með Kansas City Chiefs á síðasta tímabili.
Kareem Hunt eftir leik með Kansas City Chiefs á síðasta tímabili. Getty/Nick Cammett

NFL-liðið Cleveland Browns samdi í gær við hlauparann Kareem Hunt til eins árs. Hunt var rekinn frá Kansas City Chiefs í nóvember eftir að myndbandsupptaka kom fram þar sem hann sást beita konu ofbeldi.

Atvikið átti sér stað á hóteli í Cleveland í upphafi árs. Hunt var yfirheyrður af lögreglu en ekki handtekinn og var því ekki refsað af NFL-deildinni vegna málsins. Það var ekki fyrr en myndbandið kom fram að Hunt missti starfið sitt.

Raunar er það svo að NFL-deildin á eftir að klára rannsókn sína á málinu og refsa Hunt. Líklegt er að hann fái sex leikja refsingu vegna málsins.

Þá er Hunt einnig til skoðunar innan deildarinnar vegna tveggja anna atvika sem eiga bæði að tengjast ofbeldismálum utan vallarins. Þrátt fyrir það ákvað Cleveland að semja við Hunt, sem hefur verið einn allra besti hlaupari NFL-deildarinnar síðustu ár.

„Ég hef þekkt Karrem síðan hann var í háskóla árið 2016. Það var mikilvægur þáttur í þessari ákvarðanatöku,“ sagði framkvæmdastjórinn John Dorsey hjá Cleveland Browns. Dorsey var framkvæmdastjóri Chiefs þegar liðið valdi Hunt í nýliðavali deildarinnar.

Dorsey segir að félagið hafi sinnt sinni rannsóknarvinnu áður en félagið tók þessa ákvörðun. Niðurstaðan hafi verið sú að Hunt væri betri maður í dag.

„Það voru tvær mikilvægar ástæður fyrir þessu. Annars vegar að Kareem tók fulla ábyrgð á gjörðum sínum og sýndi iðrun. Hins vegar að Kareem hefur verið að leita sér hjálpar viðeigandi fagaðila og hann hefur skýra áætlun um framhaldið hjá sér og framtíð,“ sagði Dorsey enn fremur.

Hunt er fæddur og uppalinn í Cleveland og hann fær nú eitt ár í heimabæ sínum til að sanna sig upp á nýtt.

Mál Hunt þykir minna á mál Ray Rice, hlaupara hjá Baltimore Ravens, sem var rekinn frá liðinu árið 2014 eftir að myndband komst í dreifingu en á því sást hann beita þáverandi kærustu sína ofbeldi í lyftu á hóteli. Rice spilaði aldrei aftur í NFL-deildinni.

NFL

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.