Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða í 50 kílómetra á klukkustund við allar einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins, þar sem umferð er meira en 300 bílar á dag að jafnaði.
Ætla má að ákvörðunin sé tekin vegna manntjónsins sem varð við Núpsvötn í lok desember. Þar fór bíll yfir vegrið einbreiðrar brúar með þeim afleiðingum að þrír létust.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að um sé að ræða alls 75 einbreiðar brýr og þar af er um helmingur á hringveginum. Auk hraðalækkunarinnar verður viðvörunarskiltum breytt og bætt verður við undirmerkingum á ensku. Áætlað er að kostnaðurinn við merkingarnar nemi á bilinu 70 til 80 milljónum.
Þá hefur Vegagerðin jafnframt í hyggju að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli. Verður það gert með það fyrir augum að lækka hámarkshraðann á köflum „reynist þess þörf,“ eða fjölga merkingum um leiðbeinandi hraða.
Að sama skapi ætlar Vegagerðin að ráðast í úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og tengivegum. „Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum,“ segir í tilkynningu og bætt við:
„Eftir sem áður gildir sú gullvæga regla að ávallt haga akstri eftir aðstæðum.“
Hámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður

Tengdar fréttir

Segir úrbætur á brúm ganga of hægt
Banaslys eða önnur alvarleg slys hafa orðið á fjórtán einbreiðum brúm frá aldamótum.

Sky fjallar um slæmt ástand vega á Íslandi
Fréttastofa Sky í Bretlandi segir brýr á Íslandi hafa verið gagnrýndar lengi í aðdraganda alvarlegs banaslyss á brúnni yfir Núpsvötn þann 27. desember.