Erlent

Boeing lýkur við upp­færslu á hug­búnaði 737 MAX vélanna

Atli Ísleifsson skrifar
Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í mars síðastliðinn.
Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í mars síðastliðinn. Getty
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur lokið við þróun á hugbúnaðaruppfærslu 737 MAX vélanna. Boeing greindi frá þessu í fréttatilkynningu fyrr í dag.Boeing hyggst nú vinna með fulltrúum bandarískra flugmálayfirvalda með að skipuleggja tilraunaflug og fá tilskilin leyfi þannig að aftur verði hægt að taka vélarnar í notkun. Í yfirlýsingunni segir ennfremur að Boeing vinni einnig að því að veita frekari upplýsingar til bandarískra flugmálayfirvalda um hvernig flugstjórar skuli notast við búnað í mismunandi aðstæðum.Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í kjölfar þess að slík vél Ethiopian Airlines hrapaði í mars, innan við hálfu ári eftir að vél Lion Air af sömu gerð hrapaði í Indónesíu. Alls fórust 346 manns í slysunum.Í fréttatilkynningunni er haft eftir Dennis Muilenburg, framkvæmdastjóra Boeing, að með nýjum og uppfærðum hugbúnaði verði Boeing 737 MAX vélarnar einar af öruggustu vélum flugsögunnar.Eftir flugslysin í Indónesíu og Eþíópíu beindust böndin að sjálfstýringarhugbúnaði vélanna þar sem vísbendingar voru um að hugbúnaður sem á að koma í veg fyrir ofris hafi stýrt flugvélunum niður á við þannig að þær hröpuðu.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.