Innlent

Magnús skipaður fram­kvæmda­stjóri Vatna­jökuls­þjóð­garðs

Atli Ísleifsson skrifar
Magnús Guðmundsson hefur stýrt Landmælingum Íslands frá 1999.
Magnús Guðmundsson hefur stýrt Landmælingum Íslands frá 1999. stjórnarráð íslands
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Magnús Guðmundsson í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs frá 11. júní síðastliðinn. Hann hefur verið settur framkvæmdastjóri þjóðgarðsins síðasta ár.

Í tilkynningu á vef umhverfisráðuneytisins kemur fram að Magnús hafi verið forstjóri Landmælinga Íslands (LMÍ) á Akranesi frá 1. janúar 1999 þar til hann tók við núverandi embætti.

„Magnús hefur verið virkur í alþjóðlegu samstarfi sem forstjóri LMÍ og var hann m.a. forseti Eurogeographics 2007-2009, en það eru samtök korta- og fasteignastofnana Í Evrópu. Auk þess hefur hann tekið virkan þátt í norrænu samstarfi kortastofnana og samstarfi tengdu Norðurskautsráðinu. Meðfram störfum sínum hefur Magnús verið virkur í félagsmálum og var hann m.a. formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana frá 2009-2014 og í stjórn þess félags frá 2017-2019. Magnús tengist íþróttahreyfingunni einnig sterkum böndum og er hann nú formaður Knattspyrnufélags ÍA á Akranesi.

Magnús er giftur Guðrúnu Guðbjarnadóttur grunnskólakennara og eru þau búsett á Akranesi með fjölskyldu.

Embætti forstjóra Landmælinga Íslands var auglýst í maí sl. og sóttu tveir um stöðuna, Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri stofnunarinnar, og Reynir Jónsson cand. oecon í viðskiptafræði,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.