
Á meðan heldur undirbúningur áfram í Eyjum þar sem nýtt sædýrasafn hefur risið í tengslum við verkefnið. Aðstaðan getur nýst til að taka á móti fleiri mjöldrum í framtíðinni.
Fiska- og náttúrugripasafn var stofnað í Eyjum 1964. Safnið hefur gengið í algera endurnýjun lífdaga með flutningi í nýtt sædýrasafn.
Nýja safnið er mun stærra en það gamla. Það er gestastofa í svokölluðum griðastað mjaldra sem verða fluttir til Eyja.
„Gestastofan er í rauninni ekkert annað en gamla fiskasafnið okkar með þessari viðbót sem eru mjaldrarnir,“ segir Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Einnig eru lifandi lundar til sýnis. Margir ferðamenn koma sérstaklega til Vestmannaeyja til að freista þess að sjá lunda.

Hver hvalur um tonn
Mjaldrar eru hvalir sem fullvaxta vega um og yfir eitt tonn og eru 4-5 metra langir. Fyrst verða þeir í fjögurra vikna sóttkví í risastórri 1600 tonna laug á safninu.Tilgangurinn með flutningi mjaldranna til Eyja er að koma þeim fyrir í hvalaathvarfi í Klettsvík.
Páll Marvin segir að boðið verði upp á siglingar að mjöldrunum. „Þú getur keypt annaðhvort miða í safnið eða þá miða með siglingu út í Klettsvíkina þar sem þú sérð dýrin.“

Stefna fyrirtækisins er að koma hvölum úr skemmtigörðum í aðstæður sem líkjast meira þeirra náttúrulegu heimkynnum.
Kynning fyrir Eyjar og Ísland
Hvalabjörgunarverkefni Merlin Entertainments eru vel kynnt fyrir þeim 60 millónum gesta sem heimsækja garða fyrirtækisins árlega.„Þetta er gríðarleg markaðssetning sem við erum að fá fyrir Vestmannaeyjar og fyrir Ísland í heild með þessu verkefni,“ segir Páll Marvin hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
