Sport

Serena Williams fær tækifæri til að jafna stóra metið á sunnudaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Serena Williams á líklega eftir að vinna nokkra risatitla í viðbót.
Serena Williams á líklega eftir að vinna nokkra risatitla í viðbót. vísir/getty
Serena Williams er komin í úrslitaleikinn á Wimbledon-meistaramótinu í tennis í tólfta sinn á ferlinum en hún vann Juliu Gorges tiltölulega auðveldlega í tveimur settum í undanúrslitum í dag; 6-2 og 6-4.

Serena hefur sjö sinnum áður unnið Wimbledon-mótið, síðast árið 2016, en þá lagði hún Þjóðverjann Angelique Kerber. Úrslitaleikurinn á sunnudaginn verður endurtekning á þeim leik því Kerber vann undanúrslitaleikinn sinn í dag.

„Þetta er klikkað. Ég veit ekki hvernig mér á að líða. Ég bjóst ekki við því að standa mig svona vel á fjórða mótinu sem ég spila eftir endurkomuna,“ sagði Serena eftir sigurinn.

Þessi ótrúlega íþróttakona fæddi sitt fyrsta barn 1. september í fyrra og er nú komin í úrslit á risamóti tæpu ári síðar. Hún nálgaðist reyndar úrslitin á opna franska meistaramótinu í síðasta mánuði en dró sig úr keppni venga meiðsla.

Takist Serenu Williams að vinna á sunnudaginn verður það hennar 24. risatitill en þá jafnar hún met áströlsku goðsagnarinnar Margaret Court sem sigraði á 24 risamótum frá 1960-1973. Tveir risatitlar í viðbót og Serena mun tróna ein á toppnum.

Serena kom inn í mótið númer 25 í styrkleikaröðuninni en mótshaldarar vissu ekki alveg hvað þeir áttu að gera við þessa bestu tenniskonu sögunnar þar sem hún hefur keppt á svo fáum mótum eftir endurkomuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×