Lífið

Ég er fæddur ferðalangur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Jú, en ég er fæddur ferðalangur. Þetta er ekkert mál fyrstu vikurnar en svo fer maður að sakna heimilis. Svo er maður ekki búinn að vera lengi um kyrrt þegar maður fer að sakna rútunnar aftur. Þetta er eins og sjóaralífið.“
„Jú, en ég er fæddur ferðalangur. Þetta er ekkert mál fyrstu vikurnar en svo fer maður að sakna heimilis. Svo er maður ekki búinn að vera lengi um kyrrt þegar maður fer að sakna rútunnar aftur. Þetta er eins og sjóaralífið.“ Fréttablaðið/Stefán
Þorleifur Gaukur Davíðsson hóf nám í munnhörpuleik við Berklee-tónlistarháskóla í Boston fyrir þremur árum.

En hvernig er líf munnhörpuleikarans?

„Það líf er heilmikið ferðalag. Ég er, tæknilega séð, enn við nám við Berklee en hef verið að túra með hljómsveitinni Kaleo síðasta eitt og hálfa árið og kíkt bara við í skólanum af og til. Mér hefur dálítið verið leyft að gera það sem ég vil, sem er þægilegt. Ég má vera við skólann í fimm ár að dandalast.“

Er sjaldgæft að fólk sé í háskólanámi í munnhörpuleik?

„Það eru ekki margir sem hafa gert það. Í mínum skóla eru ýmsir sem spila á munnhörpu en eru ekki nógu klikkaðir til að gera hana að aðalhljóðfæri.“

Þú hefur fengið góða kennara samt.

„Já, alveg prýðilega. Ekki munnhörpukennara samt, heldur bara læri ég hjá öðrum hljóðfæraleikurum og færi kunnáttuna yfir á mitt hljóðfæri. Það opnar sjóndeildarhringinn töluvert að stúdera hjá öðrum en munnhörpuleikurum og er því heppilegt. Takmarkið er alltaf það sama, að gera góða tónlist.“

Semurðu tónlist?

„Já, ég sem mikið en hef ekki hugmynd um hvar það muni enda. Ég er í svo mismunandi hlutum, spila með Kaleo, djassa á fullu og hef verið aktívur í blúgrass-senunni í Bandaríkjunum. Þá koma upp lög í kollinn sem maður veit ekki alveg hvar á að setja.“

Áttu margar munnhörpur?

„Ég er alltaf með tólf á mér og svo eru aðrar úti um allt.“

Eru þetta dýr hljóðfæri?

„Nei, alls ekki, miðað við önnur. Þær sem ég er með kosta svona um 4.000.“

Hvar færðu þær bestu?

„Bara hjá Hohner, gömlu þýsku fyrirtæki, og á nokkrar Zuzuki líka. Munnhörpur fást um allan heim.“

Hvernig kynntist þú munnhörpunni?

„Ég spilaði á gítar frá unga aldri, hrifinn af blús, var dálítið kringum KK bandið. Kristján spilaði náttúrlega á munnhörpu. Maður heyrir þennan tón í gömlu blúslögunum og mig langaði alltaf að prófa, svo ég pantaði mér munnhörpu á netinu. Svo lærði ég alltaf meira og meira en spilaði bara fyrir mig.“

Varstu ekki í tónlistarskóla?

„Jú, á Akranesi, hjá Jóni Páli djassgítarleikara og síðan hjá Eðvarði Lár. Það hjálpar mikið að hafa grunninn á annað hljóðfæri. Munnharpan er svo lítið sjáanleg, maður er bara með hana uppi í sér og ekkert hægt að átta sig á hvað spilarinn er að gera. Gítarinn er þægilegri hvað það varðar, það er hægt að hugsa út frá honum.“



„Takmarkið er alltaf það sama, að gera góða tónlist,“ segir Þorleifur. Fréttablaðið/Stefán
Ertu uppalinn á Akranesi?

„Já, ég er oft kenndur við Skagann, en hef búið víða, í Eyjum, Vík í Mýrdal og fleiri stöðum. Hálfgerður flakkari. Foreldrar mínir fluttu oft og svo hélt ég því bara áfram. Stúderaði tónlist í Noregi og svo í Bandaríkjunum.

Núna fer ég bara þangað sem tónlistin ber mig. Hugurinn leitar til Nash­ville í Tennessee. Flestir sem ég spila með búa þar og þar eru ein bestu stúdíóin í heiminum. Ég hef verið dálítið þar að spila.“

En hvernig var að vera með Kaleo á flakki?

„Það var yndislegt. Sérstakur heimur. Þetta er svo stórt batterí. Það er stuð að hita upp fyrir Rolling Stones og spila á tónleikum fyrir 50–100 þúsund manns um allan heim. Þetta er líka gott tækifæri til að kynnast tónlistarmönnum. Ég er duglegur að fara á djammsessíónir og tengja við fólk. Það er magnað hvað tónlistin opnar heiminn fyrir manni.“

Verður áframhald á þessu samstarfi þínu og Kaleó? 

„Já, við verðum að túra í september um Bandaríkin og Kanada.“

Tekur ekki á að búa svona í rútu? 

„Jú, en ég er fæddur ferðalangur. Þetta er ekkert mál fyrstu vikurnar en svo fer maður að sakna heimilis. Svo er maður ekki búinn að vera lengi um kyrrt þegar maður fer að sakna rútunnar aftur. Þetta er eins og sjóaralífið.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×