Innlent

Framboð Heiðvegar metið ólögmætt

Samúel Karl Ólason skrifar
Heiðveig María Einarsdóttir.
Heiðveig María Einarsdóttir. Vísir/Vilhelm
Kjörstjórn Sjómannafélags Íslands hefur metið framboð Heiðveigar Maríu Einarsdóttur til stjórnar Sjómannafélagsins, B-lista, ólögmætt. Framboð A-lista, sem er framboð núverandi stjórnar Sjómannafélagsins var því sjálfkjörið. Þetta kemur fram í fundargerð á vef sambandsins.



Nokkrar ástæður eru nefndar fyrir því að framboðinu hafi verið hafnað. Einungis hafi verið lagður fram listi til stjórnar og varastjórnar en ekki til stjórnar matsveinadeildar eða trúnaðarmannaráðs. Kjörstjórnin telur það gegn lögum félagsins.

Þá segir að Heiðveig, sem er frambjóðandi til stjórnar félagsins, sé hvorki félagsmaður né uppfylli hún skilyrði um kjörgengi þar sem hún hafi ekki greitt í félagið í minnst þrjú ár.

Heiðveigu var vikið úr Sjómannafélaginu í lok október. Hún hefur þó stefnt félaginu fyrir félagsdómi vegna þessa.

Enn fremur segir að minnst þrír af 111 á meðmælaskrá hafi ekki verið í félaginu og þar af auki hafi frambjóðendur sjálfir sett nöfn sín á skrána og það sé gegn lögum félagsins. Það leiði til þess að fjöldi meðmæla nái ekki hundrað.

„Af öllum framangreindum ástæðum leiðir, að framboð B-lista til stjórnar í félaginu uppfyllir ekki skilyrði laga félagsins til mótframboðs og telst listinn því ekki vera lögmætur. Þar sem aðeins einn lögmætur listi, A-listi stjórnar félagsins, hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar, sbr. c-liður 5. mgr. 16. gr. laga félagsins, úrskurðar kjörstjórn að þeir menn sem þar eru tilnefndir teljast vera sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð, til samræmis við önnur ákvæði laga félagsins,“ segir í fundargerð Sjómannafélagsins.

 


Tengdar fréttir

Jónas gefur lítið fyrir gagnrýni á stjórn

Jónas Garðarsson gefur lítið fyrir gagnrýni ýmissa verkalýðsforingja og ályktun aðalfundar Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum um brottvikningu Heiðveigar Maríu Einarsdóttur.

Heiðveig þarf ekki að leggja fram málskostnaðartryggingu

Fjölskipaður félagsdómur kom saman í dag og komst að þeirri niðurstöðu að Heiðveigu Maríu Einarsdóttur beri ekki að leggja fram tryggingu fyrir málskostnaði líkt og Sjómannafélag Íslands fór fram á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×