Erlent

Refsaði dóttur sinni fyrir eineltistilburði með átta kílómetra göngu í skólann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr umræddu myndbandi.
Skjáskot úr umræddu myndbandi. Skjáskot/Facebook

Bandarískur faðir tíu ára stúlku hefur verið gagnrýndur fyrir „óhefðbundnar“ uppeldisaðferðir sínar eftir að hann lét dóttur sína ganga átta kílómetra leið í skólann. Gönguferðin var til þess að refsa stúlkunni fyrir að hafa lagt samnemendur sína í einelti.

Umræddur faðir, Matt Cox, birti myndband af dóttur sinni, Kirsten, þramma í skólann á Facebook á mánudag. Þar útskýrir hann hvernig í pottinn er búið en Kirsten var nýlega bannað að ferðast með skólabílnum vegna eineltistilburða. Cox ákvað því að kenna henni lexíu sem hann festi á filmu.

Yfir fimmtán milljónir notenda hafa horft á myndbandið á Facebook. Í myndbandinu heyrist Cox m.a. segja að hann geri sér grein fyrir því að aðrir foreldrar verði e.t.v. ekki hrifnir af uppátækinu.

„Ég er að gera það sem mér finnst hið rétta í stöðunni til þess að kenna dóttur minni lexíu og koma í veg fyrir að hún leggi í einelti.“

Í færslu sem Cox birti í gær segir hann að Kirsten líði vel og að hún hyggist hætta að stríða samnemendum sínum. Þá greindi hann jafnframt síðar frá því í viðtali við WTVG-News að göngutúrnum hefði verið skipt niður á þrjá daga.

Notendur á Facebook hafa ýmist lofað Cox eða gagnrýnt hann harðlega. Gagnrýnisraddir hafa flestar bent á að „opinber smánun“ tíu ára barns á samfélagsmiðlum sé ekki vænleg til vinnings, jafnvel þótt barnið hafi lagt í einelti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.