Erlent

Búist við sigri repúblikana sem sagðist mæta í hengingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hyde-Smith hefur sagst ekki hafa meint neitt illt með ummælum sínum um hengingar.
Hyde-Smith hefur sagst ekki hafa meint neitt illt með ummælum sínum um hengingar. Vísir/EPA
Kynþáttaspenna hefur sett svip sinn á aukakosningar um annað öldungadeildarþingsæta Mississippi í Bandaríkjunum sem fara fram í dag. Kannanir benda til þess að frambjóðandi repúblikana hafi sigur þrátt fyrir ummæli sem hún lét falla um hengingar í ríki þar sem kynþáttahatarar hengdu fjölda blökkumanna á sínum tíma.

Hvorki Cindy Hyde-Smith, frambjóðandi repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings, né Mike Espy, frambjóðandi demókrata, náðu yfir fimmtíu prósent atkvæða í þingkosningunum sem fóru fram 6. nóvember. Því var kosið aftur um sætið í dag.

Barátta þeirra hefur verið jafnari en búist var við. Mississippi er á meðal íhaldssamari ríkja Bandaríkjanna en undiralda stuðnings við demókrata og óheppileg ummæli Hyde-Smith hafa blásið vindi í segl Espy.

Á myndbandi sem birtist í kosningabaráttunni heyrðist Hyde-Smith segja við stuðningsmann að ef hann bæði hana um það myndi hún mæta í fremstu röð á opinbera hengingu.

Þau ummæli féllu í grýttan jarðveg enda á Mississippi sér svarta sögu kynþáttahaturs þar sem flokkar hvítra manna hengdu svarta menn utan dóms og laga. Breska ríkisútvarpið BBC segir að slíkar hengingar hafi hvergi verið tíðari en í Mississippi frá 1882 til 1968.

Espy, sem er svartur, fordæmdi ummæli mótframbjóðanda síns og kallaði þau „forkastanleg“. Hyde-Smith heldur því fram að hún hafi ekki vísað til „neins ills“ með ummælum sínum. Gagnrýnin á repúblikanann jókst enn þegar mynd birtist af henni við heimili Jeffersons Davis, forseta Suðurríkjanna sem sögðu sig frá Bandaríkjunum, með undirskriftinni „Saga Mississippi upp á sitt besta“.

Frambjóðendurnir fengu um 41% atkvæða hvort um sig í upphaflegu kosningunum. Espy er sagður þurfa á því að halda að svartir íbúar ríkisins fylkist á kjörstaði til að eygja von um að sigra Hyde-Smith. Vinni sú síðarnefnda eykst meirihluti repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings í 53 þingmenn gegn 47 þingmönnum demókrata og óháðra þingmanna sem vinna með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×