Enski boltinn

FA vill sjá Mourinho refsað fyrir ummælin og ætlar að áfrýja

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Enska knattspyrnusambandið vill sjá Mourinho fara í bann
Enska knattspyrnusambandið vill sjá Mourinho fara í bann vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið ætlar að áfrýja úrskurðinum sem sagði Jose Mourinho ekki fá refsingu fyrir ummæli sín eftir leik Manchester United og Newcastle.

Knattspyrnusambandið fékk til sín varalesara til þess að greina hvað Portúgalinn sagði á móðurmálinu í sjónvarpsmyndavélar BT Sport. Varalesarinn sagði „fodas filhos de puta“ í átt að myndavélinni sem þýðir víst að hórusynir megi gjöra svo vel og fokka sér.

Málið fór fyrir sjálfstæða aganefnd. Mourinho bað Manchester United að verjast málinu þar sem hann telur sig ekki hafa sagt eða gert neitt refsivert. Vörn lögmanna United var nógu góð til þess að aganefndin ákvað að Mourinho yrði ekki refsað þar sem ekki var hægt að sanna sekt hans. 

Á næsta blaðamannafundi Mourinho eftir úrskurðinn sagði Portúgalinn að hann væri „100 prósent saklaus.“

Úrskurðurinn kom enska knattspyrnusambandinu í opna skjöldu þar sem sambandið tapar nær aldrei málum sem þessum.

Í dag sendi knattspyrnusambandið frá sér tilkynningu þar sem það sagðist ætla að áfrýja þessari ákvörðun eftir að hafa farið vel yfir skriflega útskýringu á úrskurðinum.






Tengdar fréttir

Blótsyrði Henderson komu Mourinho til bjargar

Blótsyrði Jordan Henderson, fyrirliða Liverpool, hjálpuðu Jose Mourinho, knattspyrnustjóra erkifjendanna í Manchester United, að sleppa við refsingu fyrir ummæli sín í átt að sjónvarpsmyndavélum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×