Fótbolti

Dómarar þurftu fylgd óeirðarlögreglunnar eftir dramatískan sigur River Plate

Arnar Geir Halldórson skrifar
Mikil dramatík í Brasilíu í nótt
Mikil dramatík í Brasilíu í nótt vísir/getty
Argentínska stórveldið River Plate tryggði sér í nótt farseðil í úrslitaleik Meistaradeildar Suður-Ameríku, Copa Libertadores, þegar liðið vann 2-1 sigur á Gremio í Brasilíu á dramatískan hátt.

River Plate tapaði fyrri leiknum á heimavelli 1-0 og lenti svo undir í leiknum í nótt og útlitið því svart. Þegar níu mínútur lifðu leiks náði Rafael Santos Borre að jafna metin fyrir River Plate og gefa sínum mönnum líflínu fyrir lokamínúturnar. 

Nokkrum mínútum síðar var svo dæmd vítaspyrna þar sem úrugvæski dómarinn Andres Cunha notaðist við VAR-tæknina. Gonzalo Martinez steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi. Í kjölfarið ætlaði allt um koll að keyra á vellinum og voru það helst leikmenn Gremio sem létu öllum illum látum.

Þeim tókst ekki að nýta uppbótartímann til að koma til baka og umrkingdu svo dómarateymið eftir leik. Þurfti óeirðarlögregluna til að fylgja dómurunum af velli eins og sjá má á myndbandi hér fyrir neðan.

River Plate mun því leika til úrslita um Copa Libertadores í ár og mæta þar annað hvort Boca Juniors eða Palmeiras.

Boca Juniors stendur vel að vígi fyrir seinni viðureign sína gegn Palmeiras eftir 2-0 sigur í Argentínu og því ekki ólíklegt að erkifjendurnir Boca og River leiði saman hesta sína í úrslitaleiknum en það yrði í fyrsta skiptið í sögunni sem þau myndu mætast í úrslitaleik keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×