Erlent

Deilt um afar undarlegt viðtal við Drew Barrymore sem hún segist ekki hafa veitt

Birgir Olgeirsson skrifar
Drew Barrymore.
Drew Barrymore. Vísir/Getty
Eitt af undarlegri málum vikunnar er viðtal við bandarísku leikkonuna Drew Barrymore sem birtist í tímariti egypska flugfélagsins EgyptAir.

Blaðamaður kom auga á viðtalið og birti skjáskot úr því á Twitter síðu sinni þar sem hann sagði viðtalið vera súrrealískt og vöknuðu upp spurningar hjá netverjum þess efnis hvort að Barrymore hefði látið ýmis ummæli sem þar eru að finna falla.

Talsmaður Barrymore fullyrðir að leikkonan hefði ekki veitt þetta viðtal og að þau væru í samskiptum við almanntengsladeild egypska flugfélagsins.

Blaðamaðurinn sem ritar viðtalið Aida Tekla hefur varið viðtalið. Hún fullyrðir að hafa tekið viðtalið við Barrymore í New York en talsmenn Barrymore segja Tekla hafa byggt viðtalið á blaðamannafundi sem Barrymore sat.

Í viðtalinu er að finna ummæli um Barrymore sem fóru fyrir brjóstið á mörgum. Þar er Barrymore sögð hafa yfirgefið sviðsljósið til að sinna mikilvægasta hlutverki lífs síns, móðurhlutverkinu, og að hún ætli sér ekki að snúa aftur í leiklist fyrr en hún veit að dætur hennar geta séð um sig sjálfar.

Mörgum fannst blaðamaðurinn einnig lýsa Barrymore á niðrandi hátt þegar kom að því að segja frá ástarlífi hennar. Þar er hún sögð hafa átt í misheppnuðum ástarsamböndum og hjónaböndum. Er því haldið fram í viðtalinu að Barrymore hafi átt í sautján misheppnuðum samböndum því hana skorti karlfyrirmynd í líf sitt eftir að foreldrar hennar skildu þegar hún var aðeins níu ára gömul.

„Allar götur síðan hefur hún sótt í athygli og umönnun karla, en því miður fara hlutirnir ekki alltaf eins og ætlast var til og hún hefur því ekki enn náð að halda í maka af ýmsum ástæðum.“

EgyptAir hefur varið viðtalið á Twitter og sagt það ritað af fyrrverandi formanni sambands erlendra fjölmiðlamanna í Hollywood, Dr. Aida Tekla.

Aida sjálf hefur varið viðtalið, segist hafa tekið það og það sé fjarri því að vera uppspuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×