Erlent

Áfram í varðhaldi vegna gruns um njósnir í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Rússinn neitar sök í málinu.
Rússinn neitar sök í málinu. Vísir/Getty
Dómstóll í Ósló hefur úrskurðað rússneskan ríkisborgara, sem grunaður er um að hafa stundað njósnir í Noregi, í áframhaldandi gæsluvarðhald. NRK greinir frá.

Mikhail Botsjkarjov er grunaður um ólöglega njósnastarfsemi í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um norska þingið í stafrænum heimi. Að sögn saksóknara var tilgangur njósnastarfseminnar að komast yfir ríkisleyndarmál.

Það var að kröfu öryggislögreglunnar í Noregi sem dómurinn úrskurðaði að Rússinn, sem er á sextugsaldri, skyldi verða í gæsluvarðhaldi í tvær vikur til viðbótar. Maðurinn, sem situr í einangrun, neitar sök í málinu.

Maria Zacharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við rússnesku fréttastofuna Tass að ákvörðun norskra yfirvalda að fara fram á varðhald yfir Rússanum sé tilraun til að fá Norðmanninn Frode Berg, sem situr í fangelsi í Moskvu vegna njósna, lausan úr haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×