Erlent

Hvítur lögreglumaður sakfelldur fyrir morð á svörtum táningi

Kjartan Kjartansson skrifar
Van Dyke (í forgrunni) sagðist hafa óttast um líf sitt þegar hann sinnti útkallinu vegna McDonald.
Van Dyke (í forgrunni) sagðist hafa óttast um líf sitt þegar hann sinnti útkallinu vegna McDonald. Vísir/Getty
Kviðdómur í Chicago í Bandaríkjunum sakfelldi í dag hvítan lögregluþjón fyrir morð á svörtum táningi árið 2014. Lögreglumaðurinn skaut drenginn sextán skotum eftir að sést hafði til hans með hníf í hendinni á götum úti. Myndbandsupptaka af atvikinu vakti mikla athygli og hneykslan á sínum tíma.

Jason Van Dyke er fyrsti lögreglumaðurinn sem sakfelldur er fyrir manndráp í starfi í nærri því hálfa öld, að sögn New York Times. Hann var sakfelldur fyrir morð og alvarlega árás með skotvopni og gæti átt yfir höfði sér áratugalanga fangelsisvist.

Verjendur Jasons Van Dyke báru því við að hann hefði verið lamaður af ótta um líf sitt þegar hann mætti á vettvang þar sem tilkynnt hafði verið um að Laquan McDonald gengi um reikull í spori vopnaður litlum hnífi í október árið 2014. Héldu þeir því fram að McDonald væri á lífi í dag ef hann hefði sleppt hnífnum.

Saksóknarar sökuðu Van Dyke hins vegar um að hafa ýkt hættuna sem stafaði af unglingnum og að gjörðir hans hafi ekki verið réttlætanlegar, að sögn Washington Post.

Myndband úr lögreglubíl Van Dyke sem birt var í nóvember árið 2015 sýndu að McDonald var á leiðinni í áttina frá honum þegar lögreglumaðurinn stökk út úr bílnum og hóf skothríð. Van Dyke hélt áfram að skjóta jafnvel eftir að McDonald var fallinn í jörðina.

Málið var eitt fjölda annarra tilfella þar sem lögreglumenn skutu svarta menn til bana sem olli mikilli ólgu í bandarísku samfélagi. Hún braust meðal annars út í hörðum mótmælum á sumum stöðum.


Tengdar fréttir

Skaut svartan táning sextán sinnum

Lögreglumaður í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir morð, en myndband af atvikinu hefur verið birt vegna dómsmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×