Erlent

Mega brátt skjóta niður dróna í einkaeigu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verði frumvarpið að lögum munu bandarísk stjórnvöld hafa fullt skotleyfi á þá dróna sem taldir eru ógna hvers kyns öryggi.
Verði frumvarpið að lögum munu bandarísk stjórnvöld hafa fullt skotleyfi á þá dróna sem taldir eru ógna hvers kyns öryggi. Vísir/AP
Bandarísk stjórnvöld munu að öllum líkindum brátt geta skotið niður dróna í einkaeigu telji þau að ógn stafi af þeim. Tæknifréttaveitan TechCrunch greinir frá þessu.

Frumvarp sem gæti gert bandarískum stjórnvöldum kleift að skjóta niður dróna í einkaeigu, telji þau að af þeim stafi ógn, er nú á leið á borð Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Frumvarpið sem snýr að fjárveitingum til flugmálastjórnar Bandaríkjanna fram til ársins 2023, var samþykkt í öldungadeild Bandaríkjaþings í apríl síðastliðinn.

Frumvarpinu er meðal annars ætlað að nútímavæða reglugerðir um farþegaflug og auðvelda fötluðum flugfarþegum ferðalög. Þar má þó einnig finna greinar sem snúa að drónum í einkaeigu og úrræðum yfirvalda til þess að verjast þeim drónum sem ógn er talin stafa af.

Verði frumvarpið að lögum mun það gera stjórnvöldum kleift að beita hverjum þeim úrræðum sem þykja þarf hverju sinni, til þess að koma í veg fyrir þá ógn sem talin er stafa af þeim drónum sem um ræðir. Meðal þeirra úrræða er að hefta för drónanna algerlega með því að skjóta þá niður.

Þá hafa ýmis samtök sem standa vörð um borgaraleg réttindi í Bandaríkjunum gert athugasemdir við frumvarpið en helsta gagnrýnin er á þann veg að frumvarpið gefi bandarískum stjórnvöldum færi á að njósna um borgara sína, án þess að þurfa til þess nokkra heimild eða að fara eftir þar til gerðu regluverki.

Fréttaveitur vestanhafs telja nánast öruggt að Trump leggi blessun sína yfir frumvarpið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×