Erlent

„Getur reynst erfitt að eignast sænska vini“

Atli Ísleifsson skrifar

Rauðgræna blokkin í Svíþjóð er með naumt forskot á bandalag borgaralegu flokkanna í nýrri könnun sem unnin var fyrir sænska ríkissjónvarpið. Fylgi Svíþjóðardemókrata, sem rekur harða stefnu í innflytjendamálum, virðist vera aukast á ný eftir að hafa dalað í könnunum síðustu daga og má telja líklegt að flokkurinn verði næststærstur á þingi eftir kosningar á eftir flokki Jafnaðarmanna.

Hlutfall innflytjenda í Malmö er umtalsvert hærra en í öðrum sænskum stórborgum en samkvæmt tölum frá borgaryfirvöldum í Malmö hefur þriðjungur allra íbúa fæðst í öðru landi en Svíþjóð. Í bæði Gautaborg og Stokkhólmi er sama hlutfall 25 prósent.

Erfitt að eignast sænska vini
Mohammed Alonezan flúði borgarastríðið í Sýrlandi og kom til Svíþjóðar fyrir þremur árum. Hann starfaði sem lögfræðingur í Sýrlandi, stundar nú nám í sænsku í hverfinu Rosengård og stefnir að því að starfa sem lögfræðingur á ný.

Hann segir að þrátt fyrir að sænsk yfirvöld standi sig vel þegar kemur að því að taka á móti innflytjendum geti hins vegar reynst erfitt fyrir innflytjendur að aðlagast sænsku samfélagi.

„Hér í Svíþjóð – og kannski hef ég rangt fyrir mér – en ég hef fundið fyrir því að það getur reynst erfitt að eignast sænska vini.“

Mohammed segir að í Sýrlandi hafi hann alist upp við menningu þar sem tengsl milli íbúa og nágranna eru ólík þeim sem þekkjast í Svíþjóð.

„Ef þú flytur í nýja íbúð, það fyrsta sem þú þarft að gera er að banka hjá nágrönnunum. „Hæ ég kem frá...„, „Ég bý hér.“ Ef þú gerir það hér í Svíþjóð þá verður þú tilkynntur til lögreglu sama dag,“ segir Mohammed og hlær.

Arben Gradinaj.

Ekki rétt að stíga á liggjandi
Arben Gradinaj flutti til Svíþjóðar frá Júgóslavíu þegar hann var fimm ára og starfar nú sem kokkur á slökkviliðsstöð í Malmö. Hann segir að umræðuna og stemninguna í sænsku samfélagi hafa breyst nokkuð á síðustu árum þegar kemur að málefnum innflytjenda og vísar þá sérstaklega í málflutning Svíþjóðardemókrata.

Hann segir nauðsynlegt að gefa fólki tækifæri og sýna þolinmæði þegar kemur að aðlögun innflytjenda.

„Mér finnst að það eigi ekki að stíga á þá sem eru þegar liggjandi. Þetta er ekki sú mynd sem ég hef af Svíþjóð.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.