Sport

Stór útsending frá Laugardalsvelli á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brugðið á leik á æfingu íslenska landsliðsins í vikunni.
Brugðið á leik á æfingu íslenska landsliðsins í vikunni. Vísir/Vilhelm

Það er uppselt á leik Íslands og Þýskalands í undankeppni HM 2019 á morgun, laugardag. Fyrir þá sem ekki komast á leikinn verður hægt að horfa á hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, í opinni dagskrá. Útsendinguna verður einnig hægt að nálgast á Vísi.

Leikurinn hefst klukkan 14.55 en upphitun hefst klukkan 14.00 og verður í umsjón Tómasar Þórs Þórðarsonar. Sérfræðingar hans á leiknum verða landsliðskonurnar margreyndu Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir.

Helena Ólafsdóttir og Ásthildur Helgadóttir, fyrrum landsliðsfyrirliði, verða einnig í útsendingunni en leiknum sjálfum verður lýst af Guðmundi Benediktssyni.

Leikurinn sjálfur er sá stærsti í sögu íslenska landsliðsins. Sigri Ísland mun liðið tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn í sögunni. Andstæðingurinn er eitt besta lið heims, margfaldir heims- og Evrópumeistarar Þýskalands sem hafa verið í sárum eftir óvænt 3-2 tap fyrir Íslandi ytra síðastliðið haust.

Þetta er næstsíðasti leikur Íslands í riðlinum en stelpurnar mæta einnig Tékkum á Laugardalsvelli á þriðjudag. Sá leikur hefst klukkan 15.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.