Innlent

Stofnanir geti deilt vitneskju um níðinga

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mál starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur hefur verið fyrirferðamikið í fréttum undanfarnar vikur.
Mál starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur hefur verið fyrirferðamikið í fréttum undanfarnar vikur. VÍSIR/DANÍEL
Vöntun hefur verið á skýrum lagaheimildum handa stofnunum til að hafa samskipti sín á milli um einstaklinga sem talin er hætta á að brjóti gegn börnum. Í nýju frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknar, eru lagðar til breytingar á þessu. Í því felst að þeir sem brjóta kynferðislega gegn börnum skuli sæta sérstöku mati.

„Það virðist stundum sem kerfið sé þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri sé að gera. Hugmyndin með frumvarpinu er að tengja saman stofnanir,“ segir flutningsmaðurinn.

Séu taldar líkur á því að mati loknu að viðkomandi brjóti af sér aftur, er unnt að láta hann sæta sérstökum öryggisráðstöfunum. Þær gætu meðal annars falist í skyldu til að leita meðferðar og eftirliti með internetnotkun. Í alvarlegustu tilfellunum er hægt að kveða á um bann við búsetu á heimili þar sem börn dvelja. Þá er kveðið á um að dómþola sé gert skylt að tilkynna breyttan dvalarstað til Barnaverndarstofu sem og nafnbreytingar. Barnaverndarstofa geti tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd um flutning einstaklings í umdæmi hennar.

Sjá einnig: Leggur fram frumvarp um aukið eftirlit með dæmdum barnaníðingum

„Það hefur ekki verið heimilt fyrir stofnanir að hafa samráð við aðrar stofnanir sem að þessum málum koma,“ segir Anna Kristín Newton, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun. Þótt frumvarpið feli í sér íþyngjandi ráðstafanir í garð dómþola verði börn að njóta vafans.

Í frumvarpinu er ekki kveðið á um að nöfn og dvalarstaðir brotamanna séu gerðir opinberir. Anna segir það vel. „Rannsóknir sýna að slíkt hefur öfug áhrif. Það skapar ótta hjá almenningi og kemur ekki í veg fyrir frekari brot.“

„Ég fagna því að þetta sé til umræðu. Vonandi verður niðurstaðan sú að skýrari ferlar liggja fyrir handa lögreglu, barnaverndar- og heilbrigðisyfirvöldum og öðrum sem að málunum koma,“ segir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri barnaverndar Reykjavíkur.

„Það hefur vantað upp á að skýrt sé hvaða upplýsingum má deila hvenær og með hverjum,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×