Fótbolti

Buffon tekur fram landsliðshanskana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Buffon hefur verið í fremstu röð í fjölmörg ár
Buffon hefur verið í fremstu röð í fjölmörg ár vísir/getty
Gianluigi Buffon gæti tekið landsliðshanskana aftur af hillunni því bráðabirgðastjóri ítalska landsliðsins sannfærði hann að ferillinn gæti ekki endað með Svíaleiknum.

Ítalía tapaði fyrir Svíþjóð í umspili um sæti á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi og tilkynnti Buffon, sem varð fertugur á dögunum, að landsliðsferill hans væri kominn á endastöð eftir leikinn.

Luigi Di Biagio, bráðabirgðalandsliðsþjálfari Ítalíu, átti fund með Buffon þar sem hann náði að telja markvörðinn frábæra á að glæstur ferill hans gæti ekki endað svona.

„Ég ræddi við Buffon til að athuga hvort hann vildi halda áfram. Það er ekki sanngjarnt að loka leikur hans sé þessi Svíaleikur. Ég lagði til að hann myndi koma aftur og spila einn, tvo eða þrjá leiki,“ sagði Di Biagio á blaðamannafundi.

„Gigi mun væntanlega verða með okkur í mars.“

Andrea Barzagli, Giorgio Chiellini og Daniele de Rossi ákváðu allir að hætta að spila fyrir landsliðið við sama tilefni og Buffon. Di Biagio náði ekki að sannfæra Barzagli og de Rossi, en Chiellini snýr líklega aftur með Buffon.

Ítalía spilar vináttulandsleiki við Argentínu og England í landsleikjahléinu í marsmánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×