Innlent

Kurr í fræðasamfélaginu vegna skýrslu Hannesar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Vísir/Stefán
Útgáfu skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi með vorinu en hún er komin til Félagsvísindastofnunar og er þar í yfirlestri.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er töluverður kurr í fræðasamfélaginu um efni og innihald skýrslunnar en Hannes hefur sent þeim, sem um er fjallað í skýrslunni, afmarkaða kafla hennar til aflestrar til að gefa þeim kost á andsvörum og athugasemdum. Allmargir munu hafa fengið kafla senda og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýnist sitt hverjum um efni hennar.

Hannes er sagður mjög gagnrýninn á niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslunni og heimildarmenn blaðsins í fræðasamfélaginu segja ljóst að stofnunin muni þurfa að vanda yfirlesturinn til að forða henni og Háskólanum frá mögulegum málsóknum verði skýrslan gefin út í nafni stofnunarinnar.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunnar HÍ.Vísir/Anton
Skýrsluna vann Hannes á grundvelli samnings milli stofnunarinnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Samkvæmt samningnum átti að skila skýrslunni sumarið 2015.

„Ég er að lesa skýrsluna yfir með tilliti til verksamnings okkar við ráðuneytið og auðvitað okkar reglna um verk sem eru gefin út hjá okkur,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

Fyrsta lagi í apríl

Aðspurð um hvenær verkinu verði lokið segir Guðbjörg yfirlesturinn töluvert verk og allavega verði ekki hægt að búast við skýrslunni á næstu vikum. „Svo er Hannes í burtu fram í apríl þannig að það yrði í fyrsta lagi þá sem hún yrði gefin út, en eins og ég segi þá bara veit ég ekki nákvæmlega hvernig þetta verður,“ segir hún.

Aðspurð um útgáfu skýrslunnar segir Guðbjörg ekki hægt að svara neinu um útgáfu hennar að svo stöddu en yfirlesturinn lúti að því hvort skýrslan sé í samræmi við annars vegar verklagsreglur og siðareglur stofnunarinnar og hins vegar verksamninginn við ráðuneytið.

„Við erum með þennan samning við ráðuneytið um skýrsluna og nú er bara verið að fara yfir hvort skýrslan sé í samræmi við hann. Það er ekki hægt að svara neinu á þessu stigi um það í rauninni,“ segir Guðbjörg. Hún segir vinnuna unna í góðu samráði við Hannes sjálfan. Ekki náðist í Hannes við vinnslu fréttarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.