Innlent

Hafna ásökunum Morgunblaðsins og segja blaðið fara með dylgjur

Sylvía Hall skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Fréttablaðið/Anton
Stjórnendur stéttarfélagsins Eflingar vísa í yfirlýsingu fréttaflutningi Morgunblaðsins á bug og óska þess að blaðið „láti af því að gera starfsfólki félagsins upp tilhæfulaus klögumál og fara með dylgjur um starfsemi félagsins."

Þetta skrifa þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri. Morgunblaðið segir frá því í frétt sinni í dag að þau Sólveig Anna og Viðar hafi gjörbreytt vinnuandanum og vinnustaðnum til hins verra. Eru þau sögn stjórna með ofríki og hótunum í garð annars starfsfólks.

Í frétt Morgunblaðsins segir enn fremur að fjár­mála­stjóri Efl­ing­ar, sem starfað hafi hjá félaginu um áratuga skeið, sé kom­inn í veik­inda­leyfi eft­ir átök við Sól­veigu Önnu og Viðar. Sé ástæðan sú að hún neitaði að greiða Öldu Lóu Leifs­dótt­ur, eig­in­konu Gunn­ars Smára Eg­ils­son­ar, for­manns Sósí­al­ista­flokks­ins, háan reikn­ing, áður en hann yrði fyrst samþykkt­ur af stjórn Efl­ing­ar. Sólveig Anna og Viðar hafna þessum ásökunum og segjast ekki kannast við slíkt.

„Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við þá fullyrðingu blaðamanns Morgunblaðsins að fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni sökum þess að þeir hafi ekki verið samþykktir af stjórn. Alda Lóa hefur með ótvíræðu samþykki stjórnar Eflingar unnið hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“, og fyrir þá vinnu sína hefur hún að sjálfsögðu fengið greitt,“ segir í yfirlýsingunni og segja þau jafnframt fjármálastjóra og bókara hafa annast greiðslur athugasemdalaust.

Þá segja þau starfsanda innan Eflingar vera góðan og fullyrðingar Morgunblaðsins um stöðu mála innan félagsins vera rangar. „Þess er óskað að blaðið láti af því að gera starfsfólki félagsins upp tilhæfulaus klögumál og fara með dylgjur um starfsemi félagsins,“ segir að lokum.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni á síðu Eflingar. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.