Innlent

Bandaríkjamenn og NATO auka viðbúnað í Norður-Atlantshafi

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra segir að Bandaríkjamenn og Atlantshafsbandalagið séu að auka viðbúnað sinn á Norður-Atlantshafi í ljósi breyttra aðstæðna. Aðildarríki bandalagsins í Norður-Evrópu hafi kallað eftir breytingum vegna hegðunar Rússa í garð nágrannaríkja.

Koma flugmóðurskipsins Harry S. Truman ásamt herskipaflota á hafið suður af Íslandi sem utanríkisráðherra og þingmenn heimsóttu á miðvikudag, er til marks um aukin viðbúnað bandaríska flotans á Norður-Atlantshafi. Þá er viljayfirlýsing bandaríska varnarmálaráðuneytisins varðandi þátttöku í uppbyggingu flugvalla á Grænlandi einnig til marks um breyttar áherslur Bandaríkjamanna og NATO á norðurslóðum.

Í seinni tíð hefur ekki verið algengt að sjá bandarísk flugmóðurskip ásamt meðfylgjandi herskipaflota á Norður-Atlantshafi enda lögðu Bandaríkjamenn Norður-Atlantshafsflota sínum árið 2011. Rússar voru taldir til vinaþjóða og áttu fulltrúa í aðalstöðvum NATO. En aðstæður og öryggismat hefur breyst og Bandaríkjamenn hafa virkjað Atlantshafsflotann á ný sem var formlega ýtt úr vör í síðasta mánuði.

Þróunin verið í þessa hátt

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir málefni norðurslóða hafa verið rædd á síðasta leiðtogafundi NATO í sumar. „Frá árinu 2014 hefur þróunin verið í þessa átt. Lönd innan Atlantshafsbandalagsins sem eru norðarlega í Evrópu hafa verið að kalla á eftir þessu,” segir Guðlaugur Þór.

Það hafi verið áhyggjur meðal bandalagsþjóða að Bandaríkjamenn myndu ekki standa við sínar skuldbindingar innan Atlantshafsbandalagsins, en koma þessara skipa og ýmislegt annað bendi sem betur fer til þess að svo sé ekki. Aðstæður hafi breyst eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014.

Samstarf við Norðurlandaþjóðir

„Það sem hefur verið að gerast er ekki bara að Bandaríkjamenn og aðrar af þessum stærri þjóðum Atlantshafsbandalagsins hafi verið að líta til þessara svæða, heldur hefur samstarfið verið að þéttast á milli Norðurlandanna þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Þrátt fyrir að þau séu ekki öll í Atlantshafsbandalaginu eins og Finnar og Svíar eru þeir samt nánustu samstarfsaðilar bandalagsins,” segir utanríkisráðherra.

Til marks um það muni Finnar og Svíar taka þátt í alþjóðlegri heræfingu NATO í og við Noreg og Ísland í næsta mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.